Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE landa um þessar mundir fullfermi annan hver dag. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri á Vestmannaey lét vel af sér í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Við lönduðum fullfermi í Grindavík á laugardag og aftur fullfermi í Eyjum í gær. Í fyrri túrnum vorum við fyrst að veiðum á Broadway og á Planinu vestan við Eyjar en síðan var veitt við Einidrang og norður undir Trintur. Aflinn var mest þorskur en einnig töluvert af ýsu og kola. Í seinni túrnum tókum við eitt hol á Selvogsbankanum, eitt við Trintur og enduðum síðan á Pétursey. Aflinn var þá mest ýsa og þorskur. Fiskurinn sem fæst er stór og góður vertíðarfiskur en mér finnst ekki vera mjög mikið af honum. Það þarf að hafa fyrir því að fá í skipið. Þetta er ekki eins og á vertíðartíma oftast áður þegar lítið þurfti að hafa fyrir að fá aflann. Það hefur gengið vel að veiða að undanförnu en fyrirhöfnin er meiri en oftast áður. Þorskurinn virðist halda sig í ríkum mæli upp við landið, það sést lítið af ufsa en ýsan er hins vegar víða. Í næsta túr verður stefnan tekin á Háfadýpið og leitað að ufsa. Við sjáum til hvað kemur út úr því,” sagði Birgir Þór.
Jón Valgeirsson á Bergi sagði að veiðin væri ágæt. „Við lönduðum í Grindavík á sunnudaginn og aflinn var mest þorskur, skarkoli og ýsa. Aflann fengum við á Broadway og Planinu. Það gekk vel að veiða og fiskurinn fallegur. Frá Grindavík var haldið strax eftir löndun og við höfum verið að veiðum á Pétursey. Veiðin hefur gengið þokkalega en það er þó enginn hörkuvertíðarbragur á þessu. Við gerum ráð fyrir að landa í Eyjum síðar í dag,” sagði Jón.