Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði fullfermi í Grindavík í gær. Nánast allur aflinn var þorskur, en það var dálíðið af ýsu og ufsa með. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri var sáttur við veiðiferðina.

„Þetta var stuttur túr og hann gekk í alla staði vel. Við vorum á Halamiðum. Veiðin var fín og þarna var renniblíða. Við vorum einungis í einn og hálfan sólarhring að veiðum,” sagði Einar Ólafur.

Haldið var til veiða á ný strax að löndun lokinni og sagði Einar Ólafur að hugurinn leitaði austur á bóginn því nauðsynlegt væri að fara að hyggja að veiði á ýsu.