Ráðgarður Skiparáðgjöf, sem hannað hefur fjölda báta í gegnum tíðina til veiða á Íslandsmiðum sem og við Noreg, hefur nú á teikniborðinu afturbyggðan línu- eða netabát sem yrði jafn afkastamikill og síðustu bátar sem þar hafa verið hannaðir, eins og Háey I ÞH og Indriði Kristins BA.

Eigandi og aðalsprautan hjá Ráðgarði Skiparáðgjöf er Daníel Friðriksson skipatæknifræðingur. Hans fyrsti bátur af þessari gerð, sem var sjósettur árið 2009, var Saga K, 15 metra löng, sem fór til Noregs. Hún er frambyggð eins og flestir þeir línubátar sem Daníel hefur verið að gera. Einnig hannaði hann Sandfell SU, Hafrafell SU og Dúdda Gísla GK svo einhverjir bátar séu nefndir.

Sá nýjasti Guðbjörg GK

Sá nýjasti er Guðbjörg GK, krókaaflamarksbátur Stakkavíkur í Grindavík sem ólíkt öðrum er smíðaður úr stáli og áli. Til stóð að smíða einungis skrokk þess báts í Tyrklandi og ráðgert að Skipasmíðastöð Njarðvíkur kláraði síðan bátinn inni í Njarðvík. Fallið var frá því plani og báturinn nánast fullkláraður ytra en ýmis vandamál komu upp í smíðinni af hálfu tyrknesku skipasmíðastöðvarinnar. Guðbjörg GK kom til landsins seint í janúar á síðasta ári. Hún er þó ekki enn komin í drift.

Munar um hvern sentimetra

Einn afturbyggðan bát hannaði Daníel þó, Selmu Dröfn sem byggður var í Englandi og fór til Noregs árið 2011. Hann er 15 metrar á lengd. Og nú hefur Daníel á ný gert grunnteikningu að línu- eða netabát sem er frambyggður og þarf að heimfæra eldri teikningar upp á önnur mál, eða 12,6 metra í þessu tilfelli. Hann segir að það sé dálítið viðfangsefni og muni talsvert um hvern sentimetra. Daníel segir að það sé dálítið erfitt og muni talsvert um hvern sentimetra. Stóra málið er að fullnýta allt það pláss sem gefst til skynsamlegra nota. Daníel er eins og aðrir skipahönnuðir bundinn af íslenskri reglugerð sem kveður skýrt á um að tonnatala bátsins megi ekki fara yfir 30 BT. Og frá því má ekki víkja.

Tölvuteiknuð mynd af afturbyggðum línu- eða netabát Ráðgarðs Skiparáðagjafar.
Tölvuteiknuð mynd af afturbyggðum línu- eða netabát Ráðgarðs Skiparáðagjafar.

Útgerðarmenn áhugasamir

Útgerðarmenn hafa komið að máli við Daníel og sýnt því áhuga að hafa bát fremur afturbyggðan en frambyggðan. Þeir hafi nefnt það sem kost að með því móti hefðu þeir betri yfirsýn yfir línulögnina aftur með bátnum. Daníel segir að reyndar hafi komið fram góðar myndavélar fyrir mörgum árum sem staðsettar eru á beitingarvélinni og línuspilinu sem sýni línulögnina einnig. „Við miðuðum gjarnan áður staðsetningu brúarinnar út frá því að skipstjórnendur sæju vel á lúguna úr brúnni. Nú skiptir það ekki öllu máli því myndavélabúnaður hefur leyst það. En ég met það svo að helsti kosturinn við afturbyggðan bát séu hreyfingar hans á sjó. Ég þekki skipstjóra sem hafa verið til sjós alla ævi. Þeir hætta ekki til sjós vegna leiða heldur vegna þess að þeir geta ekki lengur staðið ölduna. Mun minni hreyfing er á bátnum aftanverðum og þar með er það kostur að hafa brúna þar.“

Vill rætast úr málum

Daníel er tilbúinn með grunnteikningu að slíkum bát. Hann yrði 6,6 metrar á breidd og 12,6 metrar á lengd. Hönnunin er miðuð við að hann yrði smíðaður úr plasti en möguleiki er á notkun annarra efna í skrokk. Hann myndi afkasta jafnmiklu og þeir bátar sem hann hefur teiknað undanfarið. Hann er með pláss í lest fyrir 54 660 lítra kör.

Innra skipulagið í bátnum.
Innra skipulagið í bátnum.

Kostnaður við smíði bátsins fullbúnum yrði hátt í hálfur milljarður króna. Daníel segir að fjárfestingaumhverfið innan sjávarútvegsins sé þó alls ekki gott. Menn haldi að sér höndum varðandi allt í útgerðarrekstri og vilji að línur skýrist. Blikur séu á lofti varðandi reksturinn vegna tollastefnu ríkisstjórnar Donalds Trump og boðaðrar hækkunar veiðigjalda á Íslandi. „Ég man þó eftir þungum tímum og þeir koma alltaf reglulega. Svo vill oftast rætast úr málunum,“ segir Daníel.