NRS, nýtt fyrirtæki sem stofnað var til að annast uppboð fiskmarkaða, var kynnt til sögunnar 14. október 2021. NRS hafði þróað og sett í „loftið“ uppboðskerfið Njörð og samið við tvo fiskmarkaði um að sjá um uppboð þeirra. Sama dag og uppboðin áttu að fara fram setti sýslumaður lögbann á starfsemi NRS að kröfu Reiknistofu fiskmarkaða.

NRS var stofnað af Eyjólfi Þór Guðlaugssyni, sem áður hafði starfað um þriggja áratuga skeið hjá Reiknistofu fiskmarkaða, og Erlingi Þorsteinssyni. Lögbannskrafan byggði á því að Eyjólfur hefði nýtt þekkingu úr starfi sínu hjá Reiknistofu fiskmarkaðanna, sem hafði verið eina fyrirtækið til að annast þessa þjónustu, í þágu keppinautar og það hafi honum verið óheimilt að gera.

Fyrirtaka var í málinu í janúar. Dómskvaddir matsmenn fara nú yfir hugbúnaðinn sem NRS hugðist notast við í sinni starfsemi og segir Eyjólfur í samtali við Fiskifréttir reikna með því að þegar búið verði að dæma í þessu máli hefji NRS starfsemi á ný.

Bjartsýnn á framhaldið

„Ég er nokkuð viss um að málið verði dæmt mér í vil. Við teljum okkur vera í 100% rétti í öllu því sem við höfum verið að gera. Ég hélt að ekki væri hægt að banna mönnum að starfa við það sama og þeir störfuðu við hjá öðrum en á öðrum vettvangi. Mér var sagt upp hjá Reiknistofu fiskmarkaðanna nokkurn veginn að ástæðulausu,“ segir Eyjólfur.

Hann segir Reiknistofan haldi því fram að hann hafi tekið ófrjálsri hendi hugbúnað en það sé alls ekki rétt. Hann hafi sjálfur látið hanna sinn hugbúnað.

„Það getur enginn bannað það að búið sé til bókhaldskerfi ef það er gert alveg frá grunni. Þá gilda ekki ákvæði í ráðningarsamningum um að menn ráði sig ekki til starfa hjá samkeppnisaðilum þegar þeim hefur verið sagt upp störfum. Það er alveg skýrt í lögum. Auk þess gerði ég starfslokasamning þar sem kom fram að ráðningarsamningur væri ekki lengur í gildi.“

Eyjólfur segir að verkefnum dómskvöddu matsmannanna eigi að vera lokið 15. febrúar [sl. þriðjudag]. Verði ekki um frekari frestanir að ræða verði fundinn dagur fyrir málflutning fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Dómurinn hafi síðan einhverjar vikur til þess að kveða upp dóm.

„Eigum við ekki að segja að málinu verði lokið einhvern tíma fyrir páska.“