Matís gegnir forystuhlutverki í tveimur nýjum og umfangsmiklum fjölþjóðaverkefnum sem Evrópusambandið hefur ákveðið að styrkja til þriggja ára, EcoFishMan og AMYLOMICS. Styrkir ESB hljóða upp á alls 5,5 milljónir evra, jafnvirði um 860 milljóna króna. Þar af er hlutur Matís alls 950.000 evrur til beggja verkefna, jafnvirði um 150 milljóna króna.
Eitt af markmiðum EcoFishMan verkefnisins er að greina það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun og „flytja úr landi“. Jafnframt því er horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum.
Evrópusambandið væntir þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sambandsins. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.
Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 3,7 milljónir evra á þremur árum og nemur styrkur ESB 3,0 milljónum evra (470 millj. ísl. kr.).
AMYLOMICS verkefnið áðurnefnda mun hagnýta fjölbreytt lífríki jarðhitasvæða á Íslandi við að þróa hitaþolin ensím til notkunar í sterkju- og sykruiðnaði.
Sjá nánar á vef Matís, HÉR