Matís hefur tekið höndum saman með sveitarfélögum Snæfellsnesi og blásið til sóknar í matvælaframleiðslu á svæðinu. Fyrirtækið hefur ráðið tvo starfsmenn til starfa í nýrri starfsstöð fyrirtækisins á Snæfellsnesi og taka þeir til starfa á næstu dögum.
Í frétt frá Matís segir að mikil tækifæri liggi í Breiðafirðinum. Sjávarútvegur sé þar sterkur en auk þess liggi sóknarfæri í nýtingu á öðrum og stundum vannýttum hráefnum á svæðinu. Til dæmis felist miklir möguleikar í betri nýtingu á slógi, þara og þangi.
,,Eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu mun snúa að rannsóknum og hagnýtingu á lífvirkni hinna fjölbreyttu hráefna sem finnast á svæðinu. Vonir standa til að hægt sé að þróa verðmætar eiginlegar neytendavörur eða innihaldsefni í matvæli og aðrar vörur. Sem dæmi um slíkar vörur má nefna t.d. nefna þaraskyr sem þróað var af starfsmönnum Matís í samvinnu við aðila á svæðinu. Í skyrið, sem vakið hefur mikla athygli, er einmitt notaður marínkjarni úr Breiðafirðinum. Fleiri tækifæri liggja til framleiðslu almennrar matvæla, markfæðis og fæðubótarefna úr þessum virku hráefnum,“ segir í fréttinni frá Matís.
Ekki er getið um það hvar á Nesinu starfsstöðin verði.