Matís gegnir forystuhlutverki í nýju og umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem Evrópusambandið hefur ákveðið að styrkja til þriggja ára, EcoFishMan. Upphafsfundur verkefnisins fer fram hjá Matís dagana 8. og 9. mars.
Styrkur ESB hljóða upp á alls 3 milljónir evra, jafnvirði um 475 milljóna króna. Þar af er hlutur Matís alls 450.000 eða jafnvirði rúmlega 70 milljónir króna. Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi. Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri og dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, verður með henni í vísindanefnd verkefnisins.
Evrópusambandið væntir þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.
Eitt af markmiðum EcoFishMan verkefnisins er að greina það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun og miðla þeirri reynslu áfram. Jafnframt því er horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum.
Nánar um málið á
vef Matís
.