Matís leggst á árarnar með heimamönnum beggja vegna Breiðafjarðar og hefur blásið til sóknar í matavælaframleiðslu og tengdum greinum á svæðinu. Liður í þeirri sókn er ráðning tveggja starfsmanna sem hefja munu störf á Patreksfirði á næstu dögum en þessir starfsmenn bætast í hóp þeirra tveggja sem nýlega voru ráðnir til starfa á Grundarfirði á Snæfellsnesi. Starfsmennirnir fjórir munu starfa í nánu samstarfi sín á milli og við aðra starfsmenn Matís, um allt land.

,,Mikil tækifæri felast á svæðinu. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein í stöðugri þróun en auk þess liggja sóknarfæri í uppbyggingu fiskeldis og nýtingu annarra hráefna á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikil gróska í fiskeldi kröftug uppbygging á því sviði. Starfsemi Matís mun styðja við nauðsynlega rannsókna- og þróunaruppbyggingu í tengslum við fiskeldi, en horft er til þess að þjónusta við eldistengda starfsemi verði eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu.  Þar sem stærsti kostnaðarliður fiskeldis liggur í fóðri og fóðrun er ekki hvað síst horft til þróunar er lýtur að lágmörkun fóðurkostnaðar,“ segir í frétt á vef Matís .