Það sýður á skipstjórum og útgerðarmönnum í Andalúsíu á Spáni sem komast ekki á veiðar við Marokkó þrátt fyrir að Evrópusambandið og Marokkó hafi náð samkomulagi í sumar um fiskveiðisamning.
Um tveggja ára skeið voru skip ESB útlokuð frá lögsögu Marokkó vegna samningsleysis en eftir að nýtt samkomulag var á endanum staðfest 15. júlí síðastliðinn hefur dregist að ganga frá öllum formsatriðum.
Nú er þess beðið að nefnd skipuð báðum samningsaðilum komi saman til þess að setja reglur um veiðarnar, gefa út veiðileyfi og svo framvegis. Af hálfu fiskimanna á Spáni hefur marokkóskum stjórnvöldum verið kennt um seinaganginn en þau vísa þeim ásökunum á bug og segjast hafa lagt til að nefndin kæmi saman strax eftir undirritun samningsins. Nú hefur fundartíminn verið ákveðinn 15. september.
Samkvæmt samningnum mega 126 skip frá Evrópusambandinu, þar af um 100 frá Spáni, veiða í lögsögu Marokkó gegn 40 milljóna evra greiðslu á ári, jafnvirði 6,2 milljarða íslenskra króna.