Engin þjóð innan Evrópusambandsins ver jafnstórum hluta af tekjum sínum til fiskkaupa og Portúgalir. Fiskur er 43% af öllum dýrapróteinum sem þeir neyta en næstir á eftir þeim koma Spánverjar, 33%, Ítalir 25%, Frakkar 20% og Þjóðverjar og Bretar með 15%.

Þetta kom fram í erindi François Quisse, framkvæmdastjóra Iceland Seafood í Frakklandi, á markaðsdegi fyrirtækisins sem haldinn var í Iðnó í síðustu viku. Hann sagði svigrúm til að auka neyslu á fiskmeti í Frakklandi 5-20% á næstu árum.

Quisse vitnaði til opinberra talna frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þar kemur fram að Ítalir og Frakkar vörðu nær 46 milljörðum evra, 6.310 milljörðum ÍSK, til kaupa á fiskmeti og kjöti á árinu 2017. Þar af vörðu Ítalir mest allra peningum til kaupa á fiskmeti, um 12 milljarða evra, Spánverjar um 11 milljarða og Frakkar um 8 milljarða. Aðrar Evrópubandalagsþjóðir stóðu þeim langt að baki hvað þetta varðar. Meðalneysla á fiskmeti (villtum fiski og eldisfiski) á heimili í Evrópubandalagsríkjunum nam 110 evrum árið 2017 og hafði aukist um tæp 2% frá árinu áður. Meðalneysla á heimili var 337 evrur í Portúgal og var hvergi hærri meðal Evrópubandalagsríkjanna. Í næstu tveimur sætum komu Lúxemborg og Spánn með 230 og 229 evrur. Frakkar voru í 7. sæti með meðalneyslu upp á 132 evrur á heimili.

32% ferskur fiskur

Quisse sagði að 81% fisksölunnar í Frakklandi fari fram í matvöruverslunum og fiskbúðum. Alls nam salan tæpum 7,5 milljörðum evra árið 2018. 50% sölunnar var fiskur, 26% skelfiskur og 22% tilbúnir réttir úr fiskmeti. 36% af heildinni var kældur sækeramatur eins og t.d. reyktur fiskur, soðnar rækjur og tilbúnir réttir. 32% voru ferskar afurðir, 17% frystar afurðir og 15% niðursuðuvara.

Í máli Quisse kom fram að fyrirferðamesta varan í flokki ferskra afurða er skelfiskur. Yfir 70.000 tonn seldust af ferskum kræklingi, ostru og hörpuskel árið 2018, 22.500 tonn af laxi og 22.800 tonn af þorski. Þegar litið er til verðmæta skilaði laxinn hins vegar mestum verðmætum, 417 milljónum evra, og þorskur næstmestum, 330 milljónum evra.

Quisse benti á að Frakkland væri stærsti einstaki markaðurinn fyrir þorsk frá Íslandi með 19,7% hlutdeild. Næstir koma Spánverjar með 19,2% hlutdeild, Bretar með 19% og Bandaríkin með 10,6%. Megnið af þeim þorski sem fer inn á Frakklandsmarkað er ferskur fiskur, 75%, þar af 12.000 tonn ferskir þorskhnakkar og 3.000 tonn fersk flök á ári.

Tækifæri til vaxtar

Quisse segir að á undanförnum árum hafi framsetning á ferskum þorski í smásöluversluninni í Frakklandi breyst á þann veg að aukning hefur orðið í forpökkuðum fiski á kostnað sölu úr fiskborði. 2013 var 17% af fiski seldur forpakkaður en þetta hlutfall var komið upp í rúmlega 22% árið 2018. Stöðugt fleiri neytendur kjósi forpakkaðan fisk, ekki síst vegna hagræðis og skýrra upplýsinga um verð og þyngd. Hann segir 97% Frakka neyti sjávarafurða en einungis 34% fylgi lýðheilsusjónarmiðum um að neyta þeirra oftar en einu sinni í viku. Þess vegna séu tækifæri í Frakklandi til að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða og kannanir þar í landi sýni að aldamótakynslóðin, þeir sem fæddir eru á árunum 1980-1996, hneigist að neyslu fiskmetis. 32% vilja gjarnan neyta meiri fisks og 36% vilja draga úr kjötneyslu. Quisse telur að þetta gefi tilefni til að ætla að svigrúm sé til þess að markaður fyrir sjávarafurðir í Frakklandi geti stækkað um 5-20% á næstu árum.