Naust Marine framleiðir öll spil í tíu skip rússneska útgerðarrisans Norebo sem er verið að smíða eftir teikningum Rússlandsútibús annars íslensks fyrirtækis, Nautic.

Auk þess hannar og framleiðir Naust Marine allan búnað á efra þilfari risatogarans Viktor Gavrilov sem er í smíðum og verður stærsta  fiskiskip sem Rússar hafa látið smíða í þrjá áratugi. Það er 121 metri á lengd og 21 á breidd. Þar er um að ræða alls 50 vindur og ATW togvindustjórnun frá Naust Marine, skutrenna, allir kranar og búnaður á efra dekki. Samningurinn hljóðar upp á 4,8 milljónir evra, tæpar 700 milljónir ÍSK. Frystikerfið í þetta stóra skip er hannað og framleitt af Frost hf. á Akureyri og er verkefni upp á rúman einn milljarð ÍSK.

Bjarni Þór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Naust Marine, var staddur í Pétursborg að ganga frá síðustu endum í tengslum við stofnun Naust Marine í Rússlandi þegar rætt var við hann. Hann sagði að það hefði staðið til í nokkur ár að stofna þarna fyrirtæki enda Naust Marine verið með mörg járn í eldinum í Rússlandi, ekki síst í tengslum við KNARR Maritime, markaðssamstarf sex íslenskra tæknifyrirtækja í sjávarútvegi, Brimrúnar, Frosts, Naust Marine, Nautic, Skagans 3X og Skipatækni.

Bjarni segir ljóst að Rússland geti smám saman lokast fyrir erlend tæknifyrirtæki þar sem krafa um innlenda hlutdeild aukist stöðugt.

Verkefnin undið upp á sig

Bjarni segir að með stofnun Naust Marine í Rússlandi standi vonir til þess að hægt verði að bjóða upp á þjónustu þar í landi og jafnvel framleiðslu. Til þess að svo megi verða muni fyrirtækið leita samstarfs við innlend fyrirtæki og viðræður eru komnar í gang við eitt slíkt. Bjarni segir gríðarleg tækifæri í Rússlandi enda standi yfir allsherjar endurnýjun á fiskiskipaflota landsins og landvinnslu.

  • Bjarni Þór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Naust Marine. Mynd/HARI

Naust Marine er þekkt merki í Rússlandi og hefur leyst af hendi margvísleg minni verkefni á síðastliðnum 15-20 árum þar í landi. Verkefnin hafi undið upp á sig og stækkað og nú er verkefnastaðan þar í landi sú að Naust Marine er með allan búnað í kringum í vindur í öll tíu skip Norebo sem nú eru í smíðum auk alls búnaðar í risatogarann Viktor Gavrilov. Töluvert af þeim búnaði hefur nú þegar verið sendur til Rússlands og annað á leiðinni. Allt sem lýtur að stjórnbúnaði er þróað og framleitt á Íslandi en stálhlutar eru framleiddir í útibúi Naust Marine á Spáni. Umtalsverðar tafir hafa þó orðið á verkþáttum í Rússlandi vegna áhrifa frá heimsfaraldrinum. Tveggja til þriggja mánaða seinkun er á afhendingu aðfanga til framleiðslunnar á Íslandi og hið sama á við í Rússlandi. Faraldurinn hefur líka leitt til mikilla verðhækkana á aðföngum og flutningum.

Framundan var hjá Bjarna að fara í hálfs sólarhrings flug austur yfir allt Rússland í samfloti með öðrum úr KNARR hópnum. Þar stendur til að kynna lausnir fyrirtækjanna fyrir stórum sjávarútvegsfyrirtækjum sem þar starfa eins og Lenín, Norebo og Gidostroy en líka minni fyrirtækjum. Farið verður til Petropavlosk syðst á Kamtsjatka skaganum en einnig til Sakalíneyjar austur af meginlandi Rússlands og Vladívostok í suðausturhluta Rússland skammt frá Norður-Kóreu.