Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 20 milljónum króna í sameiginlegt markaðsátak fyrir íslenskar saltfiskafurðir á árinu 2013. Það eru Íslandsstofa og Íslenskir saltfiskframleiðendur (ÍSF) sem höfðu frumkvæði að mótun markaðssamstarfs til kynningar á saltfiski í Suður Evrópu sem nýtist heildarhagsmunum greinarinnar til kynningar á íslenskum afurðum, að því er fram kemur í frétt frá Íslandsstofu.
Lögð er áhersla á íslenskan uppruna saltfisks sem og gæði og ferskleika, og mun samstarfið tryggja meiri slagkraft í kynningunni með aukna athygli á Íslandi og samhæfingu aðila á markaði í harðnandi samkeppni.
Kynningarfundur fimmtudaginn 14. feb. kl. 11 í Borgartúni 35
Framleiðendum og útflytjendum á fiski til Spánar, Portúgal og Ítalíu býðst að taka þátt í þessu sameiginlega markaðsstarfi. Verkefnið, markmið þess og framkvæmd verða kynnt á fundi fimmtudaginn 14. feb. Kl. 11 í Borgartúni 35.
Þeir sem kynna verkefnið á fundinum eru Skjöldur Pálmason formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda (ÍSF), Sigurgeir Þorgeirsson hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Gunnar Tómasson formaður verkefnisstjórnar og Guðný Káradóttir hjá Íslandsstofu.
Nánar um verkefnið
Framlag ríkisstjórnarinnar miðast við að jafnhátt eða hærra framlag renni til átaksins frá öðrum samstarfsaðilum, fyrirtækjum í greininni eða öðrum þeim sem kunna að ganga til liðs við verkefnið, en það er opið öllum þeim sem framleiða eða flytja út afurðir á þetta markaðssvæði.
Markaðir í Suður Evrópu hafa verið að dragast saman að undanförnu vegna erfiðs efnahagsástands og harðnandi samkeppni. Í þessu markaðsátaki verður lögð áhersla á mikilvægustu markaðslöndin á þessu svæði eða Spán, Portúgal og Ítalíu. Íslandsstofa sér um framkvæmd og fjárhag verkefnisins.
Markmiðið er að efla samkeppnisstöðu íslenskra saltfiskafurða og auka verðmætasköpun með því að:
· byggja upp orðspor og ímynd íslenskra saltfiskafurða sem úrvals afurða með því að vekja athygli á íslenskum uppruna og sérstöðu sem tengist gæðum og hreinleika,
· treysta tengsl við lykilhagsmunaaðila, innkaupa- og dreifingaraðila með fræðslu og kynningum,
· skapa áhuga kaupenda á íslenskum fiski og festa í sessi nýja neytendur.