Fyrstu tækin eru komin upp í nýtt húsnæði Codland í Bakkalág við Grindavíkurhöfn. Stofnað hefur verið félagið Marine Collagen og stefnt er að því að hefja framleiðslu á gelatíni og kollageni úr 4.000 tonnum af roði úr íslenskum bolfiski á ári.

Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri segir mikinn metnað fyrir verkefninu hjá eigendum Marine Collagen ehf; sjávarútvegsfyrirtækjunum Þorbirni, Vísi, HB Granda og Samherja. Juncà Gelatines á Spáni kemur inn í Marine Collagen með þekkinguna. Hlutverk Codland var að móta samstarfsformið en verður ekki hluthafi Marine Collagen ehf. Marine Collagen er í jafnri eigu Þorbjarnar, Vísis, HB Granda og Samherja en Juncà Gelatines á minni hlut.

Juncà Gelatines er fjölskyldufyrirtæki staðsett rétt hjá borginni Girona í Katalóníu sem hefur framleitt gelatín og kollagen úr svína- og nautgripahúð frá árinu 1947 og er stærsti gelatínframleiðandi Spánar.

Ný þekking mun verða til

„Þeir fá hlut í verkefninu fyrir þekkinguna. Á móti vitum við að tækin munu virka þegar þau verða gangsett. Juncà Gelatines hjálpaði okkur að velja réttu tækin og við höfum keyrt þessa framleiðslu nokkrum sinnum með þeim,“ segir Tómas og bætir við að samstarfið við Juncà Gelatines hafi skipt sköpum í mótun þessa verkefnis. Fyrirtækið búi ekki einungis yfir 70 ára reynslu í framleiðslu á þessum vörum heldur einnig gríðarlegri þekkingu á markaðnum og hvort tveggja nýtist Marine Collagen.

„Ég hef mikla trú á því að þetta samstarf eigi eftir að búa til þekkingu sem við sjáum ekki alveg fyrir núna. Eitthvað stærra en við sjáum núna. Að fá aðila eins og Juncà Gelatines með okkur í þetta verkefni er mjög verðmætt.“

Um tvær vörur er að ræða, annars vegar gelatín og kollagen. Það fyrrnefnda verður til fyrr í ferlinu en kollagenið er unnið lengra. Ákveðnir eiginleikar gelatíns henta vel fyrir matvæla- og lyfjaiðnaðinn. Dæmi um vörur er matarlím, hjúpur utan um lýsisperlur og margt fleira. Kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans. Það er að finna í öllum liðum, liðamótum, vöðvum, sinum og beinum mannslíkamans. Einnig er kollagen mjög stór hluti af uppbyggingu húðarinnar, hársins og naglanna.

Heimsframleiðsla ekki mikil

Tómas tók við sem framkvæmdastjóri Codland um mitt ár 2015. Þá voru ýmsar hugmyndir á borðinu varðandi vinnslu úr hliðarafurðum í sjávarútvegi. Ein þeirra var gelatín- og kollagenvinnslu úr roði. Framleiðsluaðferðin er þekkt og hráefnið innanlands stöðugt að aukast með stærri hlut ferskfiskvinnslu í landinu. Einnig lá það fyrir að markaðurinn er stór fyrir þessa vöru og heimsframleiðslan ekki mikil. Heimsframleiðsla á kollageni er ekki mikil og verð á vörunni því hátt, eða 20-24 evrur fyrir kílóið í magnsölu. Ekki er útilokað að Marine Collagen þrói sínar eigin neytendavörur eða í samstarfi við aðra sem margfaldar virði framleiðslunnar.

„Það voru svo margir fletir á þessu verkefni sem sannfærðu okkur um að þetta myndi virka sem stór lausn fyrir sjávarútvegsfyrirtækin sem koma að Codland. Samstarfið við Juncà Gelatines kemst á árið 2014 meðal annars fyrir milligöngu Íslenska sjávarklasans. Þá hefst verkefnið í raun og veru með samstarfssamningi við spænska fyrirtækið. Þessi samningur var svo mótaður betur eftir að ég var kominn til starfa. Flest íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru gömul og gróin fjölskyldufyrirtæki í grunninn eins og Juncà Gelatines og þótt menningarheimarnir séu ólíkir er hugsunarhátturinn svipaður. Sambandið við spænska fyrirtækið er því mjög gott og samstarfið gengur vel,“ segir Tómas.

Enn eitt skrefið til fullvinnslu

Annað fyrirtæki innan Codlands er Haustak sem hefur unnið lýsi úr lifur bolfiskafla sjávarútvegsfyrirtækjanna innan Codlands. Á tímabili vann Haustak einnig lýsi úr slóg sem hið opinbera stöðvaði á þeim forsendum að óheimilt sé að vinna lýsi úr slóg til manneldis enda þótt Codland hafi í samstarfi við Matís sýnt fram á að gæði þessa lýsis rúmist vel innan manneldismarkmiða. Þetta hindrar líka vinnslu nýju frystitogarana á slógi sem eru með bræðslu um borð. Þarna er í raun og veru þröngva útgerðinni til að fleygja verðmætum sem felast í slógi. Haustak hefur einnig verið umsvifamikið í þurrkun á hausum og hryggjum og selt til Nígeríu.

Með vinnslu á gelatíni og kollageni úr fiskroði er stigið enn eitt skrefið í fullvinnslu afurða. Tómas segir að verksmiðjan verði þannig uppsett að hún geti unnið úr 4.000 tonnum af roði á ári. Hún verður að miklu leyti sjálfstýrð. Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi verði í kringum tíu manns.

Miðað við það roð sem nú fellur til innanlands, sem gróflega áætlað er á bilinu 3.000-3.500 tonn, næði verksmiðjan ekki fullum afköstum. Samkvæmt greiningum Codlandsmanna mun magnið þó eiga eftir að aukast frá vinnslunum. Það mat byggist á því að framundan er enn meiri ferskfiskvinnsla á kostnað saltfiskverkunar. Einnig gæti það legið í framtíðinni að meira magn bærist frá togurunum. Verksmiðjan og umfang framleiðslunnar verður því að öllu leyti háð framboði á roði.

Roð selt frosið til útlanda

Tómas bendir á að erlendir framleiðendur kollagens og gelatíns kaupi frosið roð frá Íslandi. Það er því samkeppni um hráefnið. „Við höfum hins vegar alltaf þá trú að því ferskara sem hráefnið er því betri er varan.  Auk þess sjáum við að útgerðir sem hafa selt frosið roð geti minnkað kostnaðinn hjá sér því við getum tekið það ferskt. Þessu til viðbótar minnkar það kolefnisfótsporið að roðið sé unnið innanlands og það er mikilvægur þáttur í framleiðslu á hágæða próteini.“

Áhersla verður lögð á að roðið sé kælt og gæðin í góðu lagi. Fyrir það þarf að greiða útgerðinni en það á eftir að koma í ljós þegar líður á ferlið hver sá kostnaður verður. Hæsta verðið er greitt fyrir fryst roð sem er sent úr landi en þar er auðvitað innifalinn kostnaðurinn við frystinguna.

10% nýting

Einungis 10% nýting næst út úr roðinu til framleiðslu á kollageni og gelatíni. Þannig að úr 4.000 tonnum af roði verður hægt að framleiða 400 tonn af kollageni og gelatíni. 8 klukkustundir tekur að ljúka hverri framleiðslulotu úr 7,5 tonnum af roði sem skilar 750 kg af kollageni og gelatíni. Hægt verður taka þrjár lotur í húsinu á sólarhring og framleiða úr 22 tonnum af roði sem skilar 2,2 tonnum af kollageni og gelatíni.

Sjávarkollagen er einnig hægt að framleiða úr fiskhryggjum. Tómas segir að í framhaldinu verði skoðað hvort farið verði út í þá vinnslu líka. Það yrði gert með sama tækjakosti með einhverjum viðbótum þó.

Fyrsta tækið, roðhökkunarvél, er komið í vinnslusalinn í Bakkalág. Þar hafa Tómas og Davíð Tómas Davíðsson, rannsókna- og þróunarstjóri Codlands, verið að gera prófanir á hökkun á fiskroði. Verið er að smíða önnur tæki fyrir Marine Collagen erlendis sem berast til lands í desember og janúar. Vonir standa til að framleiðslan hefjist í mars á næsta ári. Áður en það gerist verða send um 60 tonn af hökkuðu, frystu roði til Juncà Gelatines í Girona og hluti af starfsfólki Marine Collagen fer utan í starfsþjálfun. Í síðasta mánuði hafði einn starfsmaður verið ráðinn. Hann er Jón Freyr Egilsson efnaverkfræðingur og starfaði áður hjá Actavis. Hann verður framleiðslustjóri verksmiðjunnar.

Fyrirtæki verður til úr engu

„Það skemmtilega við þetta er að við erum að skapa fyrirtæki úr engu. Það er dálítið skondið að við skrifstofukarlarnir bregðum okkur í gúmmísamfestinga og hökkum roð. Eitt síðkvöldið héldu fyrir mér vöku pælingar um hvað ég ætti að gera við körin undan roðinu þegar búið væri að hakka það. Það eru margir ferlar sem þarf að hugsa upp í fyrsta sinn sem ræðst af því að verið er að hefja algjörlega nýja starfsemi hérna,“ segir Tómas.

Með allt að 2,2 tonna framleiðslu á gelatíni og kollageni á sólarhring verður Marine Collagen með stærstu framleiðendum gelatíns og kollagens úr fiskroði í heimi. Stefnt verður í fyrstu að magnsölu til matvæla-, snyrtivöru- og lyfjaframleiðenda til að koma fótunum undir fyrirtækið fjárhagslega. En þegar fram líða stundir er ekki útilokað að Marine Collagen þrói sínar eigin neytendavörur eða í samstarfi við aðra aðila sem búa yfir þekkingu á smásölumarkaði.

„Við verðum með algjöra sérstöðu með rekjanleika próteininu. Kollagen úr fiskroði er núna að megninu til framleitt úr eldisfisk. Ég held því ekki fram að það sé verri vara en ímyndarlega séð tel ég okkur vera með vöru úr hreinu hafi sem á við teljum eiga mikla möguleika. Auk þess erum við innan Auðlindagarðs HS Orku og nýtum náttúrulega orku. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga úti á markaðnum fyrir kollageni úr fiskroði og alveg sérstaklega í Bandaríkjunum. Ef allt gengur upp verður framleiðslan um 400 tonn á ári sem okkur þykir mjög mikið. En þegar við höfum sett okkur í samband við bandarísk fyrirtæki þá þurfa sum þeirra 80 til 90 tonn á ári.“