Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, ætlar að ákveða fyrir lok júlímánaðar hvort hún leggi til að gripið verði til refsiaðgerða gegn Íslendingum vegna makrílveiða íslenskra skipa í lögsögu Íslands, að því er fram kemur í frétt á vef Evrópuvaktarinnar.

Evrópuvaktin vitnar í frétt  sem Reuters-fréttastofan sendi um málið í gærkvöldi. Þar segir að hugsanlega verði lagt bann við löndunum íslenskra fiskiskipa. Þá er bent á að hótun Damanaki sé birt á sama tíma og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heimsækir Brussel.

Í frétt Reuters segir að deilan vegna makrílveiða Íslendinga hafi komið til sögunnar á árinu 2009. Veiðar íslenskra skipa hafi valdið ágreiningi við Evrópusambandið og Noreg.

„Við getum ekki leyft að stofninn sé eyðilagður með einhliða aðgerðum,“ sagði Damanaki við fréttamenn að loknum fundi í sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna sem lauk í

Brussel síðla mánudags 15. júlí. „Við getum ekki beðið til næsta árs, við verðum að grípa til aðgerða núna. Í hverju aðgerðar okkar felast mun skýrast fyrir lok þessa mánaðar.“

Reuters segir að auk þess að banna íslenskum og færeyskum sjómönnum að landa afla sínum í höfunum ESB-ríkja kunni refsiaðgerðirnar að fela í sér bann við innflutningi á makríl og skyldum fisktegundum. Vitnar fréttastofan til ónafngreinds heimildarmanns.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hittir José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, í Brussel í dag, þriðjudaginn 16. júlí, segir ennfremur á vef Evrópuvaktarinnar.