„Það varð aukning milli ára en hún var ekki eins mikil og við bjuggumst við,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs hjá Hafrannsóknastofnun, um hnúðlaxagöngur í íslenskar ár í fyrrasumar.
Vorið 2022 voru lagðar út gildrur í þrjár íslenskar ár til að fanga hnúðlaxaseiði á leið til sjávar. Það var meðal annars í ljósi þess að mörg hundruð hnúðlaxaseiði veiddust í þessar gildrur á stuttum tíma sem menn áttu von á því að sterk ganga myndi skila sér árið eftir, árið 2023.
Lífsferill hnúðlaxa er aðeins tvö ár og gengur tegundin annað hvert ár upp þar sem hún hrygnir og drepst og ganga síðan seiðin til sjávar að vori þar sem þau halda sig í eitt ár og ferlið endurtekur sig.
Veldisvöxtur gekk ekki eftir
Að sögn Guðna voru skráðir um það bil 600 hnúðlaxar í veiðibækur í fyrra miðað við um 360 næsta gönguár þar á undan, 2021.
„Við erum ekki farin að sjá veldisvöxtinn sem ég var að búast við, við erum frekar farin að sjá tvöföldun,“ segir Guðni. Til þess að hafa samanburðarhæfar tölur segir hann stuðst við skráningu í veiðibækur stangveiðimanna.
„Þróunin hefur aðeins breyst frá því sem við áttum von á því við áttum von á enn fleiri hnúðlöxum á síðasta ári en við sáum. Við höfum komist að því að einhverjir eru tregir til þess að skrá hnúðlaxaveiði,“ segir Guðni, sem kveður þetta vera vegna þess að menn telji sig vera að vernda ímynd laxveiðiánna.
Sleppa skráningu hnúðlaxa
„Það væri æskilegt að menn sæju mikilvægi þess að skrá bæði rétt og vel til þess að það sé hægt að fylgjast með hvernig ástandið er. Við höfum heyrt af því að það hafi veiðst svo og svo margir fiskar og svo gáum við í veiðibókina og það eru miklu færri sem eru skráðir þá fer maður að velta fyrir sér af hverju það er ekki gert,“ segir Guðni sem kveðst hafa heyrt ýmis svör vegna þessa.
„Menn segjast ekki vilja vera að flagga þessu neitt því að sérstaklega erlendu veiðimönnunum sé ekkert vel við það að það fari að koma hér bullandi hnúðlax. En þá eru menn svolítið að skjóta sig í fótinn með því að sannleikurinn er nú sagna bestur,“ bendir Guðni á.
Gæti veitt ánægju
„Hitt er svo annað að þangað til við vitum annað skulum við ekki tala illa um hnúðlax. Hann kemur hingað syndandi og uppsprettan er einhvers staðar annars staðar,“ segir Guðni. Óljóst sé hvort ástæða sé til eða yfirleitt hægt að gera eitthvað í því.
„Mögulega gæti hnúðlaxinn orðið að nytjastofni á einhverjum svæðum og búið til
ánægju og jafnframt tekjur fyrir veiðiréttarhafa. Er þá til dæmis hægt að tiltaka árnar á Austfjörðum, þar sem eru kannski ekki stórir stofnar og lítil veiði eins og er,“ segir Guðni.
Vantar fé fyrir seiðagildrur
Engin ákvörðun hefur verið tekin um uppsetningu seiðagildra næsta vor til kanna stöðu hnúðlaxins.
„Við höfum ekki sett niður slík verkefni enn sem komið er. Það sem aðallega strandar á er að okkur vantar fólk til að geta snúið sér að því. Ef við förum að taka fólk úr öðru erum við að svíkjast um, þannig að það er ekki viljinn sem vantar heldur bara hendur til þess að vinna þessi verk,“ segir Guðni, sem kveður menn berjast fyrir því að fá meiri tíma, mannskap og peninga til að svara grunnspurningum.
„Það er samt ekki eins og við séum ekki að gera neitt því að við erum í tengslum við kollega, bæði í Bretlandi og eins Svíþjóð og Noregi, varðandi að skiptast á gögnum og upplýsingum og eigum í samvinnu. Þannig að það er framþróun í málinu þrátt fyrir að við höfum ekki sett niður að við ætlum að fara að veiða seiðin sérstaklega.“
Hélt sig við Norður-Noreg
Í Norður-Noregi var ráðist í umfangsmikið verkefni í fyrrasumar sem fólst í því að setja út gildrur í stórum stíl til að freista þess að hefta göngur hnúðlaxa sem voru að skila sér í metfjölda í þarlendar ár. Guðni segir að líkt og hér hafi menn þó búist við enn meiru.
„Reyndar fengu menn mikið af hnúðlaxi norðarlega í Noregi en minna suður með Vestur-Noregi heldur en menn áttu von á og miklu minna en menn bjuggust við að myndi koma sunnar í Evrópu eins og suður á Bretlandseyjar. Menn voru jafnvel farnir að óttast að hnúðlax kæmi til með að ná uggafestu inni í Eystrasalti – sem er ekki komið enn þá sem betur fer,“ segir Guðni, sem kveður einfaldlega mörgum spurningum ósvarað.
„Hnúðlaxinn var bara þarna norður frá en teygði sig ekki eins langt suður og hann gerði áður. Af hverju vita menn ekki en eitthvað hefur það eflaust með skilyrðin í sjónum að gera. Það veit svo sem enginn hvaða skilyrði það eru,“ segir Guðni.
Óttast áhrif á Eystrasaltsstofna
Meðal samstarfsaðila Íslendinga í þessum efnum eru Svíar eins og áður er nefnt.
„Svíar eru smeykir við að ef hnúðlaxinn kemur muni hann hafa áhrif á hefðbundna fiskistofna inni í Eystrasalti, til dæmis síldarstofna og á síldveiðar. Þannig að þeir hafa verið að sperra eyrun og augun út af þessu,“ segir Guðni og bendir á að í Kyrrahafi sé hnúðlax stærsta uppsjávartegundin í Kyrrahafi og jafnframt stærsti laxastofninn.
„Þegar hnúðlaxastofninn er mjög stór hefur það mælanleg áhrif, bæði á átuframboð í Kyrrahafi og stofnstærð annarra Kyrrahafsstofna,“ segir Guðni. Hnúðlaxinn taki því
gríðarlega mikið til sín. „Rússar eru að veiða tvö til þrjú hundruð þúsund tonn á ári. Þetta er alvöru stofn.“
Að sögn Guðna hafði Breti nokkur sem Íslendingar hafa átt í samstarfi við í gegn um laxanefndina hjá Alþjóða hafrannsóknaráðinu forgöngu um það að sækja um styrk til Norrænu ráðherranefndarinnar sem sennilega verði á endanum skilyrtur þátttöku allra Norðurlandaþjóðanna. Það fé rennur þó ekki til eiginlegra rannsókna.
Skammsýni í styrkveitingum
„Það eru komnir peningar en eins og menn vita kannski þá eru peningar Norrænu ráðherranefndarinnar til þess að halda fundi. Þannig að það verður haldinn fundur. Norræna ráðherranefndin veitir yfirleitt ekki peninga til þess að gera rannsóknir,“ segir Guðni.
Almennt segir Guðni tilhneiginguna vera þá að upphæð styrkveitinga standi í samhengi við vandamálin sem uppi eru hverju sinni en ekki sé horft til lengri tíma.
„Það er það sem mér finnst svo sorglegt því stundum er þetta spurning um að geta gripið inn í áður en það verður of seint.“