Margrétin er sönn birtingarmynd þess að það sé engin loðna og er bara bundin við bryggju,“ segir Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, um uppsjávarskipið Margréti EA sem nú hefur legið við landfestar á Akureyri í meira en hálft ár.
Síðast var landað úr Margréti þann 21. ágúst í fyrra er skipið kom til hafnar með 459 tonn af makríl auk blöndu af öðrum tegundum.
Brokkgengar vertíðir
„Margrét beið eftir loðnuvertíð sem ekki kom fyrir þetta skip og þá er bara lítið að gera,“ segir Karl Eskil. Hann kveður áhöfn Margrétar vera við störf á öðrum skipum Samherja.
„Stundum er talað um það að til þess að geta stundað þessar veiðar sem eru kannski yfir vetrartímann og í sumum tilvikum sótt þó nokkuð langt þegar vertíðirnar koma þá þurfi öflug skip,“ segir Karl Eskill. Vertíðir séu brokkgengar og við það þurfi að búa. „Og þá er það mikill styrkur að útgerðarfyrirtækin séu þó það stöndug að þau geti átt svona skip án þess að þau séu kannski í vinnu alla daga ársins,“ segir hann.
Dýrt að eiga ekki skip
Þetta sé í raun hagfræðin í slíkri útgerð. „Til þess að ná þessum verðmætum þá þarftu öflugan flota en það er ekki alltaf vinna fyrir þau. En það er líka eins gott að eiga þau þegar að þetta kemur.“
Alls ekki standi til að selja Margrétina. „Þetta er í raun bara einn fylgifiskur þess að vera í útgerð, það er að eiga öflug og góð skip þegar vertíðirnar koma. Þetta er fjárfesting auðvitað en síðan kemur kannski heljarinnar vertíð og þá er dýrt að eiga ekki skip. Svona virkar þetta og það eru sjálfsagt fleiri skip í flotanum sem eru aðgerðalítil,“ segir Karl Eskill Pálsson.