Marglyttur hafa ekki verið nytjategund af neinu tagi heldur valda frekar vandræðum, ekki síst í fiskeldi hér við land nú í seinni tíð.
Örplast hefur verið vaxandi vandamál í heiminum. Norska rannsóknarstofan Sintef segir að slit á veiðarfærum norskra fiskiskipa verði árlega til þess að yfir 200 tonn af plastögnum bætist í hafið.
Vísindamenn telja allar líkur á því að marglyttur verði sömuleiðis vaxandi vandamál, og verði hægt að losna við það vandamál með því að nýta það til að vinna bug á öðru vandamáli, þá sé verið að slá tvær flugur í einu höggi.
„Þær eyðileggja netin fyrir fiskimönnum, og hafa betur í samkeppni við fiskinn á mörgum svæðum. Nú sjást bara marglyttur á svæðum þar sem áður voru góð fiskimið,“ segir Rachel Tiller í viðtali við norska ríkisútvarpið, NRK.
Tiller starfar hjá norsku vísindastofnuninni Sintef, þar sem hún sinnir marglytturannsóknum og hefur undanfarin ár unnið að því að finna leiðir til þess að nýta marglyttuna.
Ný auðlind
„Marglyttan getur í framtíðinni orðið ný auðlind fyrir sjómenn. Það getur orðið til þess að þær verði partur af lausninni við að fjarlægja eitt vandamál úr hafinu, og um leið er það lausn á öðrum stórum umhverfisvanda,“ segir hún.
Hún og félagar hennar hjá Sintef hafa komist að því að slímið sé hægt að nota til þess að hreinsa örplast og aðrar smáeindir úr hafinu. Slímið fangar þessar smáeindir og hleðst utan á þær þannig að þær verða stærri, þannig að hægur leikur verður að sía þær burt úr hafinu.
Þar á ofan er verið að þróa leiðir til þess að nýta marglyttuna sem hráefni í snyrtivörur og jafnvel í matvæli
Hér við land eru nokkrar tegundir af marglyttum, en tvær þeirra eru algengastar: Bláglytta og brennihvelja. Brennihveljan er mun skæðari. Hún er eitruð og getur valdið margvíslegu tjóni, meðal annars á eldismannvirkjum í sjó.
„Marglyttan seytir frá sér ætandi eiturefni sem veldur alvarlegum skemmdum á þekjumfrumum tálkna og að auki myndast brunasár á roði sem tækifærissýklar geta sótt í og valdið sýkingu,“ segir í nýjustu ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma.
Þar segir meðal annars að síðsumars 2020 hafi nokkuð borið á hveljunni „í kringum laxeldiskvíar í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Fiskur varð stressaður og eilítið bar á roðskaða í einstaka kvíum“.
Fiskifréttir höfðu samband við Hafrnnsóknastofnun en fræðimenn þar komu af fjöllum þegar spurt var um þessi áform norskra um að nýta marglyttuna við hreinsun örplasts úr hafi.