Töluverður áhugi er hjá mörgum útgerðum, sem ekki hafa stundað makrílveiðar hingað til, að blanda sér í slaginn í sumar. Veiðarfæraframleiðendur sem Fiskifréttir hafa rætt við upplýsa að þeim hafi borist fyrirspurnir frá mörgum útgerðum sem séu að hugleiða að útbúa sig á makrílveiðar í fyrsta inn. Um sé að ræða bæði frystitogara og báta.
Eitt þeirra fyrirtækja sem er að spá í spilin er Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði. Togbátar fyrirtækisins, þeir Hringur SH og Helgi SH, yrðu þá sendir á makrílveiðar með eitt troll sem þeir myndu draga í sameiningu. Alinn yrði ísaður um borð og unninn í landi.
Margir hafa beðið átekta með að ákveða sig og panta veiðarfæri og búnað þar til reglur sjávarúvegsráðuneytisins um stjórn veiðanna í sumar sæu dagsins ljós. Í gær voru reglurnar svo birtar. Þær gera ráð fyrir að úthutað verði 130.000 tonna kvóta, þar af skiptast 112.000 tonn milli þeirra skipa sem stundað hafa veriðarnar síðustu þrjú árin og skal miðað við veiðireynslu. Þá eru 3.000 tonn tekin frá fyrir veiðar með línu, handfærum, netum og gildrum. Afganginum, eða 15.000 tonnum, er svo haldið eftir fyrir þá sem ekki falla undir áðurnefnda tvo flokka, með öðrum orðum nýja aðila sem hyggjast veiða með trolli eða nót.