Allt frá því kvótakerfi var tekið upp í sjávarútvegi árið 1983 hefur reynst erfitt að ná sátt um fyrirkomulagið. Málið hefur ítrekað komið til kasta alþingis og dómstóla og hver nefndin á fætur annarri fengið það hlutverk að móta tillögur sem sátt gæti ríkt um.
Undanfarna þrjá áratugi hefur fjöldi nefnda og starfshópa fengið það verkefni að skoða, endurskoða og gera tillögur um breytingar og umbætur á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.
Nýjustu vendingar í þeirri sögu eru áform Svandísar Svarsdóttur sjávarútvegsráðherra um að fá fjórum starfshópum ásamt verkefnastjórn, yfirnefnd og sérstökum lagahópi þetta verkefni í hendur, og er stefnt að því að afraksturinn birtist í nýjum frumvörpum á vorþingi 2023 og vorþingi 2024.
Drög að verkáætlun þessa fyrirhugaða starfs hafa verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda , eins og greint var frá í Fiskifréttum í síðustu viku. Í þessum drögum er birt sögulegt yfirlit um nokkrar þeirra nefnda og starfshópa sem ráðamenn hafa sett á fót til að sinna þessu verki, að gera tillögur um umbætur á stjórnkerfi fiskveiða. Hér er byggt á þessu yfirliti.
1991 - tvíhöfðanefndin
Þar er fyrsta til að telja tvíhöfðanefndina svokölluðu sem hóf störf árið 1991, fór í gegnum viðamikla greiningarvinnu og skilaði skýrslu með tillögum árið 1993. Formenn þeirrar nefndar voru Magnús Gunnarsson og Þröstur Ólafsson, en Vilhjálmur Egilsson tók við af Magnús í miðju kafi.
Sú nefnd lagði til að byggt yrði á aflamarkskerfinu, aflahlutdeild úthlutað til smábáta og að framsal aflaheimilda frá fiskiskipum til fiskvinnslustöðva yrði heimilt. Þá lagði nefndin til að Þróunarsjóður sjávarútvegsins yrði stofnaður á grunni þriggja eldri sjóða, með það markmið að auka arðsemi stuðla að fækkun fiskiskipa og vinnsluhúsa.
1998 - lagabreytingar
Næst gerðist það að árið 1998 voru sett lög til að leysa úr kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna, og var þá komið á fót Verðlagsstofu skiptaverðs sem starfar enn, og Kvótaþingi sem átti að auka gegnsæi í viðskiptum með aflaheimildir. Starfsemi þess Kvótaþings var hætt árið 2002.
Sama ár voru sett lög um hámarksaflahlutdeild einstakra útgerða.
1998 - auðlindanefndin
Árið 1998 var einnig skipuð ný nefnd, svokölluð Auðlindanefnd undir forystu Jóhannesar Nordal fyrrverandi seðlabankastjóra. Sú nefnd skilaði viðamikilli skýrslu árið 2000 þar sem dregnir eru mögulegir valkostir við fiskveiðistjórn, þ.e. veiðigjaldaleið eða fyrningar/uppboðsleið. Jafnframt lagði nefndin til að í stjórnarskræ kæmi ákvæði um þjóðareign á auðlindum.
Hæstaréttardómar 1998 og 2000
Á þessum árum tóku íslenskir dómstólar tóku að beita endurskoðunarvaldi sínu í auknum mæli á þessum árum. Hæstiréttur kvað upp tvo dóma um fiskveiðistjórnun árin 1998 (Valdimarsdómur) og 2000 ( Vatneyrardómur ). Í framhaldi fyrri dómsins varð að gera ýmsar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Afnema þurfti leyfiskerfi sem ætlað var að halda aftur af stærð fiskiskipaflotans.
2000 - endurskoðunarnefndin
Í framhaldi af dómi Hæstaréttar var árið 2000 skipuð nefnd um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun, jafnan nefnd endurskoðunarnefndin. Friðrik Már Baldursson hagfræðingur stýrði þeirri nefnd og byggði m.a. á starfi Auðlindanefndarinnar. Þar var til umfjöllunar hvort leggja skyldi auðlindagjald á sjávarútveginn og í hvaða formi slíkt gjald ætti að vera. Nefndin skilaði tillögum á seinni hluta ársins 2001 og í framhaldinu voru mótaðar tillögur að einföldu fyrirkomulagi veiðigjalda. Þær tillögur urðu að lögum vorið 2004.
2009 - sáttanefnd
Árið 2009 var skipuð fjölmenn sáttanefnd undir forystu Guðbjarts Hannessonar og Björns Vals Gíslasonar, og skilaði sú nefnd skýrslu árið 2010. Meirihlutinn taldi rétt að setja lög um tímabundna afnotasamninga. Með því yrði eignarréttur ríkisins skýr og hægt yrði að ganga formlega frá ráðstöfun auðlindarinnar gegn gjaldi.
Frumvörp Jóns og Steingríms
Síðla vors 2011 lagði Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, fram frumvarp sem náði ekki fram að ganga á Alþingi en byggði í megindráttum á niðurstöðu sáttanefndar.
Frumvarp Jóns var síðan unnið áfram, fyrst af sérstakri ráðherranefnd og síðan af Steingrími J. Sigfússyni eftir að hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra. Steingrímur lagði fram nýtt frumvarp vorið 2012. Bæði þessi frumvörp um stjórn fiskveiða dagaði uppi í þinginu.
Frumvarp Jóns um strandveiðar frá 2011 og frumvarp Steingríms um veiðigjald frá 2012 urðu þó að lögum.
2015 – frumvarp Sigurðar Inga
Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, lét fullgera frumvarp árið 2015 um tímabundna einkaréttarlega nýtingarsamninga um aflaheimildir. Frumvarpið naut þó ekki stuðnings þáverandi ríkisstjórnar og því var það ekki lagt fyrir Alþingi.
2017 – greinargerð Þorsteins Pálssonar
Vorið 2017 fól Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, einum forvera sinna í embætti, Þorsteini Pálssyni, að ræða við fulltrúa allra þingflokka um framtíðarfyrirkomulag auðlindagjalds. Þorsteinn skilaði greinargerð um haustið en engar tillögur um lagabreytingar voru lagðar fram.
2018 – lög um veiðigjöld
Haustið 2018 lagði Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, fram frumvarp um veiðigjöld sem varð að lögum síðla árs 2018. Samkvæmt þeim annast Skatturinn útreikning veiðigjalda og er álagningin nú byggð á skattagögnum útgerða, og nýrri gögnum um afkomu útgerða en áður.
2019 – frumvörp Kristjáns Þórs
Næst-síðasta kaflann hingað til skrifaði svo Kristján Þór Júlíusson sem skipaði á árinu 2019 starfshóp um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun hinna svokölluðu atvinnu- og byggðakvóta sem nema 5,3% af heildaraflamarki hvers árs. Þarna er um að ræða almenna byggðakvótann sem ráðuneytið úthlutar í samvinnu við sveitarstjórnir, sértæka byggðakvótann sem Byggðastofnun ráðstafar, ásamt aflaheimildum til strandveiða, línuívilnunar, skel- og rækjubóta auk frístundaveiða. Þessi starfshópur skilaði ítarlegri skýrslu í upphafi árs 2020, en frumvarp sem byggði á tillögum hans náði ekki fram að ganga á Alþingi.