Það er samdóma álit sjómanna á vertíðarsvæðinu suðvestanlands að sjaldan eða aldrei hafi verið eins mikið fiskirí í netin og nú í vetur. Halldór Kr. Þorvaldsson skipstjóri á Gunnari Hámundarsyni GK 357 segir í samtali við Fiskifréttir að aflinn í dag sé mörgum sinnum meiri en hann var fyrir þremur áratugum miðað við sama netafjölda. Þessi fullyrðing er ekki út í bláinn því hann styðst þar við aflabækur föður síns á þessum sama báti.
Bækurnar sýna að um það bil sem kvótakerfið tók gildi var Gunnar Hámundarson GK með 100 net í sjó sem alltaf voru látin liggja yfir nótt. Þá þótti gott að fá 6-7 tonn í róðri. „Núna er maður fúll ef ekki fást 6-7 tonn í 30 net sem dregin eru þremur tímum eftir að þau eru lögð. Á bátnum núna eru þrír í áhöfn en voru 8-9 fyrir þrjátíu árum. Þetta er sami báturinn og sams konar veiðarfæri,“ segir Halldór.
Sjá nánar viðtal í Fiskifréttum.