Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í Reykjavík í dag skorar á ríkisstjórnina að falla frá því að endurflytja frumvarp um fiskveiðistjórnun sem lagt var fram á Alþingi sl. vetur, en dagaði þar uppi vegna mikillar andstöðu í þjóðfélaginu.

Þá skorar aðalfundurinn á ríkisstjórnina að endurskoða þær gríðarlegu hækkanir veiðigjalda á sjávarútvegsfyrirtæki sem meirihluti Alþingis samþykkti við þinglok í júní sl. Fundurinn mótmælir sérstaklega þeirri aðferð við gjaldtökuna að nota áætlaða heildarframlegð í fiskvinnslu til að hækka álagningargrunn veiðigjalda.

,,Með margföldun veiðigjalda og aðgerðum sem felast í frumvarpinu um fiskveiðistjórnun er augljóslega verið að kollvarpa rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, stórauka skattheimtu, breyta aflahlutdeildarkerfinu og auka pólitísk afskipti af sjávarútveginum.

Margföldun veiðigjalda mun óhjákvæmilega kalla á frekari samþjöppun í sjávarútvegi með þeim afleiðingum að starfsemi margra minni útgerða og fiskvinnsla mun leggjast af,“ segir í ályktun fundarins.