Marel hefur keypt 90% hlut í hátæknifyrirtækinu Völku og stefnir að því bjóða eigendum þeirra 10% sem eftir standa kauptilboð á sömu kjörum. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda

Kerfislausn Völku samanstendur annars vegar af vélbúnaði og hins vegar hugbúnaði fyrir fiskvinnslu á landi og sjó, einkum á ferskum fiski en einnig frystum. Vörur fyrirtækisins eru yfir tuttugu og flokkast í vatnskurðartækni, flokkunartækni og hugbúnað. Meðal þeirra eru sjálfvirkar beina- og bitaskurðarvélar fyrir fiskflök í hvítfisk- og laxavinnslum.

Valka var stofnað árið 2003 og fæddist í bílskúr systur Helga Hjálmarssonar, framkvæmdastjóra Völku. Helgi, sem áður starfaði hjá Marel, vildi þróa vél sem gæti pakkað og skorið ferskan hvítfisk með nákvæmari hætti en áður. Úr varð sjálfvirk vatnskurðarvél, sem skar fiskinn hárnákvæmt með kraftmikilli en smárri vatnsbunu. Í dag starfa hjá Völku yfir 100 manns og selur fyrirtækið tækni sína og búnað til sjávarútvegsfyrirtækja víða um heim – en þó helst á Íslandi og í Noregi.