Maórar, frumbyggjar Nýja-Sjálands, líta sérstaklega til íslensks sjávarútvegs sem fyrirmyndar að skipan sjávarútvegsmála heima fyrir.

Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri, hefur verið Maórum innan handar í málaflokknum. Maórar eiga tilkall til helmings auðlinda sjávar Nýja-Sjálandi.

„Maórar eru með eignarhald á 50% af útgefnum kvóta á Nýja-Sjálandi. Þetta var hluti af friðarsamningum stjórnvalda þar í landi við frumbyggjana. Maórar hafa áhuga á því að nútímavæða sjávarútveginn og færa hann nær því sem er á Íslandi,“ segir Ögmundur.

Fram til þessa hefur kvóti Maóra að miklu leyti verið leigður til stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu. Maórar vilja breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu hjá sér á þann hátt að fyrirtækin sem veiða kvóta þeirra, horfi meira til verðmætasköpunarinnar, en nú fer mestur hluti aflans hausaður, slægður og frystur til frekari úrvinnslu í Kína.

„Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar hefur alið af sér mjög markaðsdrifin fyrirtæki og markaðsdrifinn sjávarútveg sem við sjáum hvergi annars staðar í heiminum. Og við ætlum að miðla Maórum af okkar reynslu í þessum efnum,“ segir Ögmundur.

Sjá nánar í tímariti Fiskifrétta.