Stórmarkaðskeðjur í hinum vestræna heimi vilja teygja sig langt til þess að öðlast bætta ímynd í hugum viðkvæmra viðskiptavina. Þannig hefur Tesco, stærsta verslunarkeðja Bretlands, kynnt nýtt átak sem miðar að því að tryggja að eldisfiskurinn pangasíus frá Víetnam, sem á vaxandi vinsældum að fagna í Bretlandi, sé drepinn á eins mannúðlegan hátt og hugsast getur.
Tesco hefur tekið höndum saman við annað stórfyrirtæki, Cumbrian Seafoods, sem varið hefur tveimur árum í að þróa nýja aðferð til þess að sálga fiskinum. Í frétt á alþjóðlega sjávarútvegsvefnum Fis.com er ekki farið nánar út í aðferðina en sagt að höfð hafi verið hliðsjón af slátrunaraðferðum í laxeldi þar sem svipaðar vinnureglur voru teknar upp fyrir nokkrum árum.
Haft er eftir talsmann Tesco að þetta sé einn liðurinn í stefnu fyrirtækisins um að tryggja velferð fisksins sem þeir bjóði til sölu.