Í einu af þeim erindum sem flutt voru á ársfundi SFS í Hörpu í byrjun mánaðar var fjallað á nýstárlegan hátt um ónýtt tækifæri til nýsköpunar í sjávarútvegi. Erindið flutti Tryggvi Hjaltason, framkvæmdastjóri farsældarhraðalsins Andvara og stjórnarformaður Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Rauði þráðurinn í erindi Tryggva var sá að með nýrri nálgun í fyrirtækjarekstri, tækniþróun og þróun gervigreindar væri hægt að margfalda virði sjávarútvegs á Íslandi. Viðtalið við Tryggva birtist fyrst í páskablaði Fiskifrétta sem kom út 16. apríl síðastliðinn. Viðtalinu fylgja nokkrar glærur úr erindi Tryggva.

Innbyggt samkeppnisforskot

Tryggvi segir fjölmarga þræði sameiginlega hjá fyrirtækjum í ólíkum geirum sem skara fram úr í nýsköpun. Rannsóknir og þróun séu sérstaklega mikilvægir þættir í keðjunni sem kallar á sérfræðiþekkingu, aðgang að áhættufjármagni og prufumörkuðum. „Ísland hefur það sem ég kalla innbyggt samkeppnisforskot á sviði nýsköpunar. Þetta er lítið land með stuttum boðleiðum til stjórnvalda og fjárfesta og er að mörgu leyti fullkominn prufumarkaður. Það fallega við þetta er líka að fyrirtæki sem hafa náð árangri á sviði nýsköpunar vilja gjarnan miðla forsendum árangursins til annarra og opna jafnvel tengslanet sitt. Íslensk fyrirtæki hafa þess vegna oft náð sérstaklega eftirtektarverðum árangri. Það þarf skipulega að virkja þá orku sem hér er til staðar. Það hefur verið gert til dæmis með öflugra endurgreiðslukerfi rannsókna og þróunar sem yrði öðrum þjóðum fyrirmynd, Rannís-styrki sem yrðu fyrirsjáanlegir, með því að virkja Íslandsstofu betur, auka aðgengi og ráðningu erlendra sérfræðinga og styrkja hvata lífeyrissjóða til að fjárfesta í nýsköpunarsjóðum. Tvær síðustu ríkisstjórnir voru mjög virkar nákvæmlega á þessu sviði og landslagið hérna stökkbreyttist,“ segir Tryggvi og víkur að því nánar:

Úr 50 í 700 milljarða króna

Til að mæla árangurinn sem orðið hefur telur Tryggvi eðlilegra að líta til aukinna útflutningsverðmæta frekar en fjölgun starfa. Velferð Íslands byggist á gjaldeyristekjum og þess vegna hafi sjávarútvegurinn alltaf verið svo mikilvægur. Hugverkageirinn flutti út fyrir rúma 50 milljarða króna árið 2009. Á síðasta ári voru útflutningsflutningsverðmætin 309 milljarðar króna. „Miðað við vaxtaráætlanir 17 stærstu hugverkafyrirtækjanna gætu útflutningsverðmætin numið 700 milljörðum króna á ári fyrir lok þessa áratugar. Þessu var hægt að hrinda í framkvæmd þegar stjórnvöld fóru að ganga í takt með atvinnulífinu.“

Tryggvi flutti aftur til Vestmannaeyja 2018 þar sem lang stærstur hluti gjaldeyristekna er tengdur sjávarútvegi. Sú spurning leitaði strax á hann hvers vegna hraðari og kröftugri nýsköpun væri ekki innan þessa öfluga sjávarútvegs. Hann kynnti sér virðiskeðjuna hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum í Vestmannaeyjum, allt frá veiðum til vinnslu og sölu, og taldi þar strax á þriðja tug augljósra nýsköpunartækifæra.

„Ég er ekki sérfræðingur í sjávarútvegi en ég sá strax að inni í þessari keðju eru gríðarleg tækifæri. Fljótlega eftir að ég flutti aftur heim kortlagði ég hvernig atvinnulífið í Vestmannaeyjum gæti litið út eftir 100 ár. Til að undirbúa erindið settist ég niður með eigendum og framkvæmdastjórum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Samtalið leiddi mér fyrir sjónir að hvatakerfið innan sjávarútvegsins er mjög erfitt. Innan þessarar greinar snýst málið að stærstum hluta um hve mikið verði leyft að veiða, hvort fiskurinn gefi sig, hver staðan verði á mörkuðum og hvernig olíuverð þróast? Og koma kannski nýir skattar og ný gjöld? Allt eru þetta breytur sem sjávarútvegsfyrirtækin ráða engu um. Stór hluti af stjórnendaorkunni virðist gjarnan fara í þessa hluti. Það er því ekki að undra að nýsköpun sitji á hakanum. En ég held einmitt að út af grunneiginleikum íslensks sjávarútvegs sé hægt að ná gríðarlegri virðisaukningu að því gefnu að rannsóknir og þróun verði stærri grunnþáttur í rekstrarmyndinni. Sjávarútvegsfyrirtækin þekkja hráefnið til hlítar, þau eru tæknivædd miðað við sjávarútveg í öðrum löndum, þau eru yfirleitt fjársterk, þau hafa aðgang að mörkuðum og þekkja þá og hafa nauðsynleg tengsl út á markaðinn. Þarna er því allt til staðar fyrir virðisaukandi nýsköpun á svo mörgum sviðum. Skortur á framangreindum púslum hrjá gjarnan flest íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref,“ segir Tryggvi.

Stefnt verði að a.m.k. 2% til rannsókna og þróunar

Samtalið við sjávarútveginn á Íslandi leiddi einnig í ljós að flest fyrirtækin verja vel innan við 1% af veltu til rannsókna og þróunar, jafnvel innan við 0,5%. Nokkur verja allt að 2-2,5% til þessara mála þegar best lætur en til samanburðar eru fyrirtæki sem setja a.m.k. 6-10% af veltu til rannsókna og þróunar gjarnan talin til hátæknifyrirtækja. Svo dæmi sé tekið er þetta hlutfall gjarnan 40-50% hjá leikjaframleiðendum. „Ég myndi vilja sjá framsýn fyrirtæki miða í áttina að því að fjárfesta að minnsta kosti 2% af veltu í rannsóknir og þróun á hverju ári sem myndi stórauka líkurnar á góðum hlut í þeim gríðarvaxna tækniábata sem fer að flæða yfir heimsbyggðina.“

Útflutningsverðmæti hugverka á Íslandi.
Útflutningsverðmæti hugverka á Íslandi.

Tryggvi segir þessa stöðu enn meira spennandi í ljósi þess tæknistökks sem mannkynið býr sig undir. Í samanburði við fyrri áratugi séu stórar tæknibyltingar að verða með gervigreind, róbótavæðingu og nýrri orku. „Þetta er áratugurinn sem mun valda stærstu breytingunum á öllum virðiskeðjum, kostnaðarkeðjum og vinnumarkaðsmódelum.

Iðnaður eins og sjávarútvegurinn getur ekki setið hjá aðgerðalaus því þá verður hann undir í samkeppninni. Kerecis er svo gott dæmi um mögulegan ábata. Það er sett gríðarleg orka, tækni og vinna í að veiða fisk. Á endanpunktinum fást kannski að hámarki 3.000 krónur fyrir þorskflakið. En svo er hægt að taka part af fiskinum, eins og Kerecis gerir, þar sem endaverðmætið fyrir eitt kíló af roði er 18 milljónir króna. Svona sögum mun líklega fjölga t.a.m. með því að vinna betur í þeirri fjársjóðskistu sem virðist vera að finna í augum fiska og stóraukinni þekkingu á þessari guðsgjöf sem er hafið og hvernig er hægt að nýta hráefnin þar betur t.a.m. til þróunar fæðubótarefna og til lækninga- og lyfjaþróunar.

Hlutverk sjávarútvegsins á ekki eingöngu að vera það að skófla hráefninu upp og bíða eftir því að aðrir ótengdir komi og margfaldi verðmætin. Sjávarútvegurinn á að halda áfram að byggja sig upp í virðiskeðjunni. Stutt er í það að gervigreind nýtist til að finna fiskinn og róbótar fara um höfin og kortleggja lífkerfið og hvernig eigi að vernda það. Í kjölfarið verður hægt að veiða mun meira en um leið með ábyrgari hætti. Við eigum ekki að vera háð duttlungum þess sem við stjórnum ekki. Tæknin gerir okkur kleift að hafa miklu meiri stjórn yfir raunveruleikanum.“

Undir handleiðslu CIA

Tryggvi ólst upp í Vestmannaeyjum og sleit þar barnskónum. Hann lauk BS námi í Bandaríkjunum í því sem á ensku kallast Global security and intelligence studies. Meðal kennara voru nokkrir prófessorar sem voru fyrrverandi starfsmenn CIA. „Þetta nám kenndi mér að greina kerfi. Meðan ég var í náminu úti varð bankahrun á Íslandi. Ég kom heim í vængbrotið Ísland og fór eins og fleiri að skoða hver væri framtíð Íslands." Í meistaranámi sínu var viðfangsefnið Ísland sem hugverkaland. Hann hélt víða fyrirlestra um mikilvægi nýsköpunar og viðstaddur eitt slíkra erinda hans var Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, sem réði hann í starf hjá fyrir tækinu. Þar fékk Tryggvi frjálsar hendur til að vinna við nýsköpun og til að stuðla að vexti á Hugverkalandinu Íslandi í góðum hópi. Saman stofnuðu þeir ásamt fleirum Hugverkaráð árið 2016 innan Samtaka iðnaðarins. Hilmar Veigar var fyrsti formaður þess og tók Tryggvi svo við formennsku frá 2018 til 2024. Hann flutti svo aftur til Vestmannaeyja 2018. Tryggvi á fjögur börn, er giftur Guðnýju Sigurmundsdóttur.