Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út um sexleytið í morgun vegna fiskibáts sem hafði strandað utarlega í Súgandafirði.
Björgunarbátarnir Stella frá Flateyri, Kobbi Láka frá Bolungarvík og björgunarskipið Gísli Jóns frá Ísafirði héldu þegar á staðinn, ástamt björgunarsveitinni Björg á Suðureyri, sem sendi björgunarfólk landleiðina sem og á slöngubát.
Jafnframt var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kölluð út á mesta forgangi.
Veður á staðnum var sæmilegt, en einhver alda sem lamdi bátinn í fjörunni.
Þegar björgunarfólk var komið að bátnum á sjó var ljóst að erfitt yrði að lenda bát í fjörunni við strandaða bátinn.
Slöngubáturinn frá Björgu tók einn skipverja Kobba Láka um borð til sín fyrir utan, og náði að lenda í fjörunni aðeins utan við strandaða bátinn og setja þar tvo í land.
Þeir gengu svo að strandstað og náðu að aðstoða þá 2 skipverja í land sem í bátnum voru.
Þeir voru nokkuð vel á sig komnir og töldu sig geta rölt í átt að Suðureyri, eða þangað sem bílfært væri.
Þyrla gæslunnar var þá komin vel á veg og var ákveðið að hún myndi hífa skipbrotsmenn úr fjörunni. Þeir voru svo fluttir með þyrlu inn á Suðureyri þar sem lögregla tók á móti þeim til skýrslutöku.
Báturinn liggur enn í fjörunni og verður athugað með að freista þess að ná honum á flot seinni partinn í dag, en háflóð verður um 17:00.
Það er einnig áhugavert að í þessu útkalli voru 3 konur af 4 áhafnarmeðlimum um borð í björgunarbátnum Stellu.