Það hljóp á snærið í orðsins fyllstu merkingu hjá áhöfninni á Berki NK í síðustu veiðiferðinni áður en hlé var gert á veiðum vegna Íslensku sjávarútvegssýningarinnar. Börkur var þá að síldveiðum á Glettinganesflaki og á aðeins einum tíma nam innkoman í Gloríu Helix 1600 m síldar- og makríltrollið heilum 500 tonnum.
Hjörvar Hjálmarsson var skipstjóri í veiðiferðinni og hann segir í samtali á vef Hampiðjunnar að innkoman í trollið í þessu stutta holi hafi verið sú mesta sem hann muni eftir.
,,Það voru fínar torfur þarna og síldin laus frá botni. Við sökktum því trollinu niður á 60 faðma þar sem er 90 faðma botndýpi. Svo hafði maður fullt í fangi með að fylgjast með aflanemunum því innkoman í trollið var svo skörp. Þegar síðasti aflaneminn gaf merki þá var ekki um annað að ræða en hífa. Við vissum ekkert hvað hafði bæst við framar í trollinu á meðan við hífðum en þetta blessaðist allt og aflinn í holinu var um 500 tonn,“ segir Hjörvar en þess má geta að alls eru fjórir aflanemar á trollinu.
Að sögn Hjörvars var síldin var úrvalsgæðum og ekki síðri en nótaveiddur fiskur. Skörp innkoma og stutt hol skýra gæðin.
Áhöfnin á Berki hefur notað Gloríu 1600 flottrollið undanfarin tvö ár og segir Hjörvar að menn séu mjög ánægðir með það, jafnt á síldinni sem og á makrílnum.
Sjá nánar á vef Hampiðjunnar.