Von er á frystitogaranum Helgu Maríu AK til hafnar í Reykjavík á dag eftir stutta veiðiferð. Aflanum, um 7.000 kössum af blönduðum afla, verður landað og tekið verður um borð nýtt Gloríuflotttroll frá Hampiðjunni sem notað verður á úthafskarfaveiðunum sem nú eru að hefjast. Að sögn Eiríks Ragnarssonar, skipstjóra, liggur mönnum þó ekki lífið á vegna þess hve mikið úthafskarfakvótinn hefur verið skertur milli ára.
,,Við höfum verið á heimaslóðum í þessari 11 daga veiðiferð og farið víða. Við fórum fyrst alveg austur í Hvalbakshall til að leita að ufsa en það gekk erfiðlega að finna hreinan ufsa. Það er nánast sama hvar trolli er dýft niður. Það er alls staðar þorskur á öllum grunnum og í öllum köntum. Menn eru farnir að hífa eftir fimm mínútna hol til þess að lenda ekki í vandræðum,“ segir Eiríkur í viðtali á heimasíðu HB Granda . Að hans sögn er það ekki bara þorskstofninn sem vel er haldinn um þessar mundir.
,,Ég er búinn að vera á þessum veiðum síðan 1975 og ég man ekki eftir betra ástandi á gullkarfastofninum. Útbreiðsla hans er sömuleiðis með ólíkindum og megnið af karfaaflanum veiðist nú á óhefðbundnum veiðisvæðum. Það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir ekki svo árum ef menn hefðu fengið góðan karfaafla á Halanum en nú kemur fyrir að upp í 25 tonn af hreinum karfa fáist í holi. Svo virðist sem að árgangar, sem búið var að afskrifa, séu að koma að krafti inn í veiðina og þess sáust strax merki í fyrra,“ segir Eiríkur.