Landsréttur mun skera úr því innan tíðar hvaða upphæð ríkissjóði beri að greiða útgerðarfélaginu Vinnslustöðinni og dótturfyrirtæki þess, Hugin, í skaðabætur vegna makrílkvóta sem þau ekki fengu frá ríkinu á árunum 2011 til 2018. Málið var flutt í Landsrétti 10. október síðastliðinn.

Mál með rætur í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar

Ekki fengust upplýsingar frá Landsrétti um það hvenær dómur í málinu verður kveðinn upp að öðru leyti en því að það verði að líkindum á næstu vikum og í öllu falli fyrir áramót.

Málið á aðdraganda til ársins 2011 er Jón Bjarnason, alþingismaður úr Vinstri grænum sem þá fór með sjávarútvegsmál í ríkisstjórn VG og Samfylkingar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, setti umdeilda reglugerð um úthlutun makrílkvóta. Töldu nokkur útgerðarfyrirtæki Jón ekki hafa farið að lögum og skert lögmætan hlut þeirra. Stefndu fyrirtækin ríkinu til greiðslu skaðabóta.

Ríkið áfrýjaði bótaupphæðinni

Fór svo að sum fyrirtækin féllu frá bótakröfunni en Hæstiréttur dæmdi Vinnslustöðinni og dótturfélagi fyrirtækisins, Hugin, í hag og viðurkenndi skaðabótaskyldu ríkisins.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi síðan í júní 2023 að ríkið skyldi reiða Vinnslustöðinni og Hugin samtals ríflega einn milljarð króna í bætur vegna úthlutunar aflaheimilda á makríl 2011 til 2018. Þeim dómi áfrýjaði ríkið síðan til Landsréttar og var málið flutt þar 10. október síðastliðinn sem fyrr segir.

Átta ára tímabil

Í ársreikningi Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2023 sem gerður var opinber fyrr á þessu ári er getið um stöðuna á þessu máli. Hæstiréttur hafi viðurkennt að íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð á fjártjóni sem Vinnslustöðin og Huginn ehf. kynnu að hafa orðið fyrir vegna þess að skipum útgerðanna hefðu með ákvörðun Fiskistofu á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum en skylt hefði verið samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.