Samningafundinum um stjórn makrílveiða í NA-Atlantshafi, sem halda átti á Íslandi næsta mánudag og þriðjudag, hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna samgönguerfiðleika af völdum eldgossins.

Á vef samtaka norskra útvegsmanna segir að trúlega verði fundinum frestað fram í fyrstu viku maímánaðar. Reykjavík er ennþá fyrirhugaður fundarstaður en vera kann að fundurinn verði fluttur til annarrar borgar ef þurfa þykir.

Fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs, Færeyja, Íslands og Rússlands voru boðaðir til fundarins. Óvissa ríkir um veiðistjórnun á makríl á næstunni. Ísland hefur gert kröfu um samsvarandi hlut í heildarkvótanum og veiðireynsla Íslendinga segir til um og Færeyingar hafa nú einnig krafist mun stærri hlutar en þeir hafa haft hingað til. Þessu hvoru tveggja hafa hinar þjóðirnar hafnað.