Viðræðum Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins í  makríldeilunni lauk í Björgvin í Noregi í morgun án samkomulags. Viðræðunum var þó ekki formlega slitið og verður unnt að taka upp þráðinn að nýju ef deiluaðilar meta það svo að möguleiki sé á samkomulagi.

Sigurgeir Þorgeirsson aðalsamningamaður Íslands sagði í samtali í hádegisfréttum RÚV að viðræðurnar hefðu strandað á tveimur þáttum, annars vegar skiptingu makrílkvótans milli þjóða og hins vegar ákvörðun um leyfilegan hámarksafla.

Íslenska samninganefndin lagði áherslu á að kvótinn yrði sem næst því sem Alþjóðahafrannsóknaráðið ráðlagði fyrir árið 2014 sem eru tæp 900 þús. tonn en aðrir samningsaðilar hefðu viljað auka kvótann um 40-60%. Það þýðir að hann yrði hátt í ein og hálf milljón tonna.