Makrílvertíðin Spánverja í Biscayflóa hófst í vikunni og lönduðu basknesk skip um þúsund tonnum af makríl strax á fyrsta degi vertíðarinnar, að því er fram kemur á vefnum fis.com.

Verð sem fékkst fyrir makríl veiddan í nót var á bilinu 1,15 evrur upp í 1,40 evrur á kílóið (190-232 ISK). Makríll sem veiddur var á króka var seldur á 1,30 evru.

Um helmingi makrílaflans var landað í borgininni Ondarro en þar lönduðu 56 skip. Um 300 skip eru í baskneska flotanum og mega þau veiða um 19 þúsund tonn af makríl. Kvótanum er skipt á milli nótaskipa, togskipa og smábáta.

Vertíðin var endasleppt í fyrra sökum mikillar veiði en nú hafa verið settar reglur um að makrílaflinn megi ekki fara yfir 500 kíló á dag á hvern skipverja á stærri bátunum en minni bátar megi ekki veiða meira en 2,3 tonn á dag.