Íslensku uppsjávarskipin hafa verið að veiða makríl af talsverðum móð í Síldarsmugunni í um 350 sjómílna fjarlægð frá landi. Börkur NK, nýtt uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, hefur farið í tvo makríltúra. Skipið er nú í þeim þriðja og vel hefur gengið.
Fyrsti túrinn var á heimamiðum og afraksturinn um 500 tonn. Börkur landaði síðan á sunnudag og fram á þriðjudag 1.600 tonnum sem fengust á um 40 klukkustundum í sex holum í Síldarsmugunni.
„Við lögðum af stað aftur í nótt [aðfaranótt þriðjudags] og verðum komnir seinnipartinn á morgun. Svona heilt yfir hefur verið ágætis veiði. Þetta byrjar alla vega mun betur en í fyrra. Við erum búnir að landa tvisvar núna. Tókum einn túr í heimalögsögunni og svo fórum við í Smuguna og tókum um 1.600 tonn sem við vorum um 40 tíma að veiða. Við vorum sáttir við það og við vorum að fá mjög góðan fisk,“ segir Hjörvar Hjálmarsson, annar tveggja skipstjóra á Berki NK.
30 tonn á klukkustund
Hann sagði að sér litist ágætlega á framhaldið. Það tók tvo og hálfan sólarhring að landa síðast enda farmurinn stór. Þegar langt er að fara er gott að geta komið með stærri farma. Landað er um 30 tonnum á klukkustund sem miðast við vinnslugetuna í landi. Vel fer um hráefnið í kælitönkum skipsins meðan á löndun stendur, en um borð eru stórar kælipressur til að kæla niður aflann og minni kælipressur til þess að viðhalda kælingunni á heimstími og í löndunum.
Hjörvar segir að meðalvigtin á þessum makríl hafi verið 470-480 grömm en var í fyrstu holunum nær 500 grömmum. Allt saman mjög vænn makríll sem er að éta á sig spik. Aðallega sé hann á höttunum eftir rauð- og glærátu á þessum slóðum. Þó var minni áta í síðasta farmi en í bátunum sem höfðu verið að veiða á undan. Þeir voru að fá makríl sem var allt upp í fjóra í átu meðan hann var í 1,5 hjá Berki. Hjörvar segir að það hafi hentað ágætlega því verið var að heilfrysta mikið af hráefninu en það er ekki gert nema makríllinn sé átulítill. Sé hann fullur af átu fer hann í flökun og hausun.
Olíueyðslan langt niður
„Við tókum þennan fyrsta túr í heimalögsögunni og síðan hefur ekkert verið veitt þar. Hornfirðingarnir og Vestmanneyingarnir hafa verið að kíkja eftir makríl á heimamiðum á leið í Smuguna en hafa ekki orðið varir. Hún er mjög stór þessi kuldatunga austur af landinu sem nær langt suður eftir. Ég er hræddur um að makríllinn skili sér ekki mikið inn í okkar lögsögu en auðvitað getur það alveg breyst og vonandi gerist það.“
Siglingin í Smuguna og aftur heim er nálægt 700 sjómílur. Hjörvar segir því koma sér vel að vera á nýju og hagkvæmu skipi. Hjörvar var líka á eldri Berki. Hann segir að miðað við þá siglingu sem þeir voru á þegar rætt var við hann sé nýr Börkur að eyða um það bil 100 lítrum minna á klukkustund en sá eldri.
„Það má með miklu öryggi segja að eyðslan sé um 20% minni í þessu nýja skipi ef ekki meira. Við erum að sigla núna út af landgrunnskantinum í svarta þoku og logni nánast og spegilsléttum sjó. Ég á von á því að við verðum aftur heima á laugardag eða sunnudag,“ segir Hjörvar.