Nokkur íslensk uppsjávarskip voru í Smugunni nærri 69. gráðu norðlægrar breiddar í byrjun viku að gera það sem hægt var til að klára makrílkvótann. Lítið vantar almennt upp á að menn nái sínum skammti eða að minnsta kosti stærstum hluta hans. Þó er það þannig að sumar útgerðir vilja færa það sem óveitt er af aflamarkinu yfir á næsta ár, þá og þegar reglugerð um það berst frá ráðuneytinu. Þegar leið á vikuna höfðu skipin fært sig syðst í Smuguna.

„Já, við erum hérna í Smugunni, enn að reyna að særa upp einhvern makríl. Það hefur eitthvað gengið svona síðustu daga en þó verið talsvert erfitt að ná honum. Við höfum þurft að draga lengi og eitthvað fengist en hann er allur að ganga núna inn í Jan Mayen lögsöguna,” segir Kristján Þorvaldsson, skipstjóri á Venusi NS, uppsjávarskipi Brims hf.

Færeysk skip voru að reyna fyrir sér sunnar í Smugunni og leist Kristjáni þannig á málin að þeir færu að nálgast þau til að athuga heimtur þar. Þegar þetta er skrifað í byrjun vikunnar höfðu íslensk skip náð að veiða rúmlega 120 þúsund tonn af makríl á þessari vertíð af rúmlega 131 þúsund tonna aflamarki. Eskfirðingarnir og Norðfirðingarnir hafa þó náð sínu en eitthvað vantaði upp hjá öðrum.

Mikil umferð á litlum blettum

Fjöldi skipa var norðarlega í Smugunni, þar á meðal rússnesk og færeysk skip og allir í einum hnapp. Kristján sagði mikla umferð þarna á litlum blettum og því erfitt stundum að athafna sig. Venus var búinn að vera átta daga á miðunum og hafði landað í Víking AK sem sigldi til Vopnafjarðar með 1.400 tonn.

„Við erum svo bara búnir að dýfa veiðarfærunum einu sinni og komnir með 200 tonn og Svanurinn með 150 tonn sem fara ofan í lest hjá okkur. Við þurfum helst að ná um 900 tonnum í Víking til viðbótar svo við getum geymt 10% fram á næsta ár. En það er eitthvað á reiki ennþá hve mikið verður hægt að geyma.“

Á mánudag og aðfaranótt þriðjudags var svo keyrt í suðurátt og var Venus kominn syðst í Smuguna og kastaði við Færeyja- og Noregslínuna á þriðjudag. Kristján sagði eitthvað að sjá á köflum en makríllinn stefndi hraðbyri út af alþjóðlega hafsvæðinu.

Kristján Þorvarðarson
Kristján Þorvarðarson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á síldveiðar upp við kartöflugarðana

Í svari við fyrirspurn á Alþingi um hvort áformað sé að takmarka geymsluheimild á kvóta makríls við 15% vegna síðasta árs, sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að ákvörðun um það verði ekki tekin fyrr en sjái fyrir endann á makrílveiðum á þessu ári.  Kristján segir óvissu af þessu tagi vissulega óþægilega.

Makríllinn sem þarna hefur verið að veiðast er stór og fallegur. Kristján segir meðalþyngdina 510 grömm sem geri hann líka erfiðari viðureignar því hann er þá fljótari í förum. Þegar Venus var á makrílveiðum innan íslensku lögsögunnar var meðalþyngdin langt upp í 600 grömm. Kristján segir þó ljóst að það sjái fyrir lokin á þessum veiðum í Smugunni.

„Þá taka við veiðar á norsk-íslenskri síld upp við kartöflugarðana heima. Það verður gjörbreyting frá þessu enda ekki nema fjögurra tíma stím á miðin. Það er bara lúxus,“ segir Kristján.