Álagt veiðigjald á landaðan makríl í Færeyjum verður jafngildi 16 íslenskra króna á hvert kíló á næsta ári samkvæmt tillögu færeysku landsstjórnarinnar. Það er talið munu gefa landsstjórninni jafnvirði tveggja milljarða íslenskra króna að því gefnu að veiðin verði tæp 130.000 tonn.
Lagt er til að fyrirkomulagi gjaldsins verði breytt frá því sem gilti á þessu ári. Í ár voru reglurnar þannig að gjaldið var 5,30 ISK/kg af fyrstu 3.000 tonnunum sem skip veiddi en 16 ISK/kg fyrir afla umfram það. Landsstjórnin vill að á næsta ári verði veiðigjaldið 16 ISK/kg á allan landaðan makríl. Ástæðan er sú að á síðustu vertíð leituðust menn við að komast framhjá því að greiða hærra gjaldið með því að framselja kvóta milli skipa. Auk þess var minni afla landað í erlend vinnsluskip en vænst hafði verið.
Þá hefur færeyska landsstjórnin lagt til að 2,5% aukaskattur verði lagður á þau sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki sem skili meira en einni milljón færeyskra króna, jafnvirði tæplega 22 milljóna íslenskra. Með þessum skatti er gert ráð fyrir að ná jafnvirði 285 milljóna íslenskra króna.
Færeyska útvarpið skýrði frá þessu.