Handfæraveiðar á makríl við Noreg hafa verið stundaðar í sumar en í lok síðustu viku fóru stærri skipin í gang. Á vef norska síldarsamlagsins kemur fram að um 25 skip séu komin á miðin sem eru um 170 mílur norðvestur af Álasundi í norsku lögsögunni suðaustur af Síldarsmugunni.

Makríllinn er sagður af svipaðri stærð og í fyrra eða að meðaltali 350-390 grömm. Lítil áta hefur verið í fiskinum. Veiðar hafa gengið vel og hefur aflinn komist upp í 550 tonn í kasti.

Í Fiskeribladet/Fiskaren í dag segir að fyrstu bátarnir hafi fengið allt upp í 12,10 NOK fyrir kílóið sem er jafnvirði 169 ISK. Verðið er talsvert hærra en í fyrra og nokkuð yfir væntingum, segir einn skipstjóranna.

Norski makrílkvótinn í ár er 211 þúsund tonn og nemur heildaraflinn til þessa 18 þúsund tonnum sem fyrst og fremst er handfæraafli.