Tveir frystitogarar Brims, þeir Guðmundur í Nesi RE og Brimnes RE, eru þessara dagana við makrílveiðar í grænlenskri lögsögu við Austur-Grænland. Um er að ræða tilraunaveiðar með veiðileyfi frá grænlenskum stjórnvöldum. Íslensk stjórnvöld hafa nú gert ráðstafanir til þess að stöðva þessar veiðar.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur sett reglugerð sem segir að veiðar íslenskra skipa á grálúðu, kolmunna, makríl, norsk-íslenskri síld og úthafskarfa í lögsögum annarra ríkja séu óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu. Skilyrði fyrir leyfisveitingu Fiskistofu sé að fyrir hendi séu samningar um nýtingu á viðkomandi stofni með tilheyrandi aðgangi að lögsögu þess ríkis sem um ræðir.

Þó er tekið fram að íslenskum skipum sem hafi þegar hafið veiðiferð fyrir gildistöku reglugerðarinnar sé heimilt að ljúka henni.

Finnur Harðarson framkvæmdastjóri Bjarnars ehf. sem sá um útvegun leyfanna hjá grænlenskum stjórnvöldum furðar sig á þessari afstöðu stjórnvalda sem sé óskiljanleg. Hér séu íslensk skip með íslenskum áhöfnum að skapa íslensku þjóðarbúi tekjur með tilraunaveiðum í lögsögu vinaþjóðar sem eigi ekki sjálf skip til slíkra veiða. Að banna slíkt komi  eingöngu andstæðingum Íslendinga í makríldeilunni til góða.