Frystitogarar HB Granda hafa að undanförnu verið að makrílveiðum, fyrst fyrir vestan land og síðan á Austfjarðamiðum. Aflabrögð voru með ágætum framan af en síðustu dagana hefur veiðin dregist saman og aflavonin er helst frá því að dimma tekur að kvöldi og fram á nóttina. Það er tilfinning skipstjóra frystitogaranna að veiðin sé að þorna upp og að makríllinn sé á leiðinni út úr íslenskri lögsögu.
Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, segir í viðtali á heimasíðu HB Granda að treg veiði hafi verið síðustu þrjá til fjóra dagana og farið sé að bera á meira af síld sem meðafla.
,,Mín tilfinning er sú að þetta sé að verða búið, a.m.k. hjá okkur á frystitogurunum. Við erum með mun smærri troll en uppsjávarveiðiskipin og vélaraflið er sömuleiðis í flestum tilvikum minna. Á móti kemur að við þurfum minna aflamagn en þau þar sem að vinnslu- og frystigetan á hverjum degi ræður því hve mikið við getum veitt,“ segir Eiríkur.
Ægir Franzson, sem er skipstjóri á Þerney RE í yfirstandandi veiðiferð, tekur í sama streng og telur að makrílveiðar frystitogaranna séu í þann veginn að fjara út á þessari vertíð.
,,Það er veiði yfir blánóttina en aflabrögðin hafa tregast mikið frá því fyrr í sumar. Þá vorum við að makrílveiðum fyrir vestan land en að undanförnu hafa skipin verið að veiðum úti af Austfjörðum. Uppsjávarveiðiskipin eru reyndar að fá ágætan afla á okkar mælikvarða en ég heyri það á skipstjórum þeirra að þeir eru ekkert alltof sáttir við aflabrögðin,“ segir Ægir Franzson.