Færeyingar hófu makrílveiðar fyrir nokkru og eru skipin búin að veiða samtals um 5.000 tonn sem er heldur minna en í fyrra þegar um 6.000 tonn höfðu veiðst, að því er fram kemur á vef færeyska útvarpsins.
Skipin eru nú að veiðum „í ein útnyrðing“ frá Færeyjum sem þýðir norðvestur ef sami skilningur er lagður í hugtakið útnorður í Færeyjum og á Íslandi. Einnig hefur makríll fengist á Sandeyjarbanka. Makríllinn er sagður góður, um 300 grömm að þyngd og þar yfir.
Fram kemur að togararnir Gullberg og Sjakaklettur sem frysta makrílinn um borð hafi fengið um 20 tonn á sólarhring.
Fyrsta erlenda vinnsluskipið verður fljótlega klárt til að taka á móti makríl af færeyskum skipum. Skipið sem heitir Atlantic Oreon verður í Fuglafirði á sunnudaginn.