„Makrílstofninn virðist vera mjög heilbrigður. Út frá rannsóknum sumarsins, togmælingum, verður ekki séð að veiðar á makríl umfram ráðgjöf hafi gengið nærri stofninum,“ segir Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, í samtali við nýjustu Fiskifréttir.

Rætt er við Svein um makrílleiðangurinn í sumar. Eins  og fram hefur komið mældust um 1.525 þúsund tonn af makríl á íslensku hafsvæði sem eru um 17% af makríl sem mældist í Norðaustur-Atlantshafi.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var leigt til mælinga á makríl í grænlenskri lögsögu. Á fáeinum dögum mældust þar um 500 þúsund tonn, eða 5,7% af heildinni.

„Í ljósi þess hve mikið hefur mælst í rannsóknum á útbreiðslu makríls í sumar og undanfarin sumur held ég að menn séu almennt komnir á þá skoðun að stofninn sé töluvert stærri en stofnmatið segir til um,“ segir Sveinn Sveinbjörnsson.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.