Áætlað er að makrílstofninn í Norðaustur-Atlantshafi sé nú 8,8 milljónir tonna að stærð. Þetta er niðurstaða trollmælinga sumarsins í Norska hafinu og nærliggjandi hafsvæðum, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar, en rannsóknaskip frá Noregi, Íslandi og Færeyjum tóku þátt í þeim.
Haft er eftir Leif Nöttestad, helsta makrílsérfræðingi Norðmanna, að makrílstofninn hafi aldrei mælst stærri eða útbreiðslan meiri.
Til samanburðar má nefna að samsvarandi leiðangur í fyrra gaf 5,1 milljón tonna en Nöttestad leggur áherslu á að matið nú og í fyrra sé ekki sambærilegt því í sumar hafi rannsóknaskipin farið yfir tvöfalt stærra hafsvæði og náð að jaðri útbreiðslusvæðisins á fleiri stöðum en þá. Eigi að síður séu líkindi til þess að makrílstofninn hafi stækkað umtalsvert milli áranna 2012 og 2013.
Fram kemur að árgangurinn frá 2012 sé sterkur og sé 20% af stofninum miðað við fjölda fisk. Árgangarnir frá 2006, 2007 og 2011 leggi til 15% hver og árgangurinn frá 2008 gefi 12%.
Skýrsla um rannsóknir sumarsins verður nú lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið sem þingar þessa dagana í Kaupmannahöfn um nýjustu upplýsingar um makrílstofninn og aðra fiskistofna. Gert er ráð fyrir að veiðiráðgjöfin verði birt í byrjun október.
Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur ekki ennþá lagt blessun sína yfir stofnstærðarmat makríls byggt á trollaðferðinni sem notuð var í rannsóknunum í sumar. Aðferðin verður metin á næsta fundi ráðsins í febrúar á næsta ári.