Ástand makrílstofnsins í Norðaustur-Atlantshafi er mjög gott og útbreiðsla hans í hafinu meiri en nokkru sinni fyrr. Hins vegar virðist stofn norsk-íslensku síldarinnar vera á niðurleið, sennilega vegna þess að engir sterkir árgangar hafa bæst við stofninn á síðustu árum.
Þetta kemur fram í frétt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Vísað er í niðurstöður rannsókna sem gerðar voru í sumar með þátttöku rannsóknaskipa frá Noregi, Færeyjum og Íslandi og náðu yfir Noregshaf og Íslandsmið.
Mælingar á makrílstofninum með trolli gáfu vísbendingu um að 4,46 milljónir tonna af makríl hefðu verið á því svæði sem skipin fóru yfir. Bergmálsmælingar gáfu hins vegar 12,1 milljón tonna. Trollmælingin er talin hafa vanmetið stofninn en bergmálsmælingin ofmetið hann.
Mælingar á norsk-íslensku síldinni með trolli gáfu til kynna að 2,28 milljónir tonna hefðu verið á rannsóknasvæðinu. Bergmálsmælingar í sumar sýndu hins vegar að stofninn væri 10,7 milljónir tonna að stærð en þess má geta að bergmálsmælingin í maí í vor gaf aðeins 5,8 milljónir tonna. Til samanburðar má nefna að bergmálsmæling á norsk-íslensku síldinni á tímabilinu júlí-ágúst í fyrra sýndi 13,6 milljónir tonna.
Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur nú niðurstöður þessara rannsókna til umfjöllunar og kemur með tillögur sínar um heildarafla bráðlega. Fastlega er búist við að lögð verði til veruleg skerðing á afla norsk-íslensku síldarinnar.