Samningamenn ESB, Noregs og Færeyja hafa náð samkomulagi um makrílkvóta næsta árs. Samningurinn gerir ráð fyrir 1.054 þúsund tonna heildarkvóta samanborið við 1.240 þús. tonna kvóta á yfirstandandi ári.
Kvótinn skiptist þannig að samningsaðilarnir þrír ætla sér samtals 890 þús. tonn (84,4%) en skilja eftir 164.424 tonn handa öðrum þjóðum (15,6%). Þær þjóðir eru Ísland, Rússland og Grænland.
Þetta er sama hlutfallsskipting og samningur þessara aðila fyrir yfirstandandi ár hljóðaði upp á.
Samkvæmt nýja samningnum fær ESB 519.512 tonna kvóta, Noregur rúmlega 237.000 tonn og Færeyjar 132.814 tonn.