Júpíter ÞH, skip Ísfélags Vestmannaeyja, varð í síðustu viku vart við makríl skammt undan Eyjum. Lítilræði af honum ánetjaðist er verið var að prófa nýja gerð trolls að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra Ísfélagsins. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.

Huginn VE fer í kvöld út til þess að leita makríls suður af Vestmannaeyjum. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins, segir nokkra eftirvæntingu hjá sínum mönnum og „orðið tímabært að fara að byrja á veiðunum."  Huginn, sem er aflahæsta íslenska makrílveiðiskipið, landaði fyrsta makrílfarmi sínum í fyrra þann 5. júní. Heimilt er að veiða allt að 130.000 tonn af makríl í sumar samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að þótt ekkert hafi þokast í samkomulagsátt á fundinum strandríkja í London um haldi útvegsmenn sínu striki við makrílveiðarnar í sumar. „Að sjálfsögðu viljum við ná samningum við önnur strandríki um heildarstjórn makrílveiðanna en látum það ekkert trufla okkur þótt einhver töf verði á samkomulagi," segir Friðrik.