Gullberg VE landaði í gærmorgun 850 tonnum af makríl sem fékkst suðaustur af landinu innan íslenskrar lögsögu. Þar heldur uppsjávarflotinn sig núna eftir að hafa verið dagana á undan í fremur dræmri veiði í Síldarsmugunni.

„Þeir eru eitthvað að kroppa núna, alveg við miðlínu Færeyja og Íslands. Það eru mjög góðar fréttir að makríll veiðist innan lögsögunnar og það getur skipt miklu máli fyrir samningsstöðu Íslands. Þarna er núna allur flotinn að dansa á miðlínunni við Færeyjar. Þetta var fínasti makríll sem við fengum og mun betri en í fyrra. Það er mun styttra að fara eftir honum. Svo eins og segir einhvers staðar þá er þetta ágætis byrjun,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Uppsjávarflotinn er í einum hnapp mitt milli Íslands og Færeyja og samkvæmt MarineTraffic eru þar Huginn VE, Börkur og Beitir NK, Aðalsteinn Jónsson SU, Hákon EA, Margrét EA, Venus NS, og Hoffell SU.