Makríllinn er farinn að ganga inn í íslenska lögsögu á svipaðan hátt og í fyrra, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag. Norsk-íslenska síldin er einnig komin inn fyrir lögsögumörkin en mun minna mældist af henni nú en um þetta leyti á síðasta ári.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson kom í gær úr rannsóknaleiðangri þar sem hugað var að norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl. Leiðangursstjóri í fyrri hluta leiðangursins var Sveinn Sveinbjörnsson.
,,Makríllinn er greinilega genginn dálítið áleiðis inn í íslenska lögsögu. Það er enginn kraftur í göngunni ennþá en við sáum ekki minna af honum núna en í fyrra á þessum tíma. Það er ekkert sem bendir til annars en að makrílgangan verði svipuð og á síðasta ári,” segir Sveinn í samtali við Fiskifréttir.
Svo virðist sem norsk-íslenska síldin sé seinna á ferðinni en á síðasta ári. ,,Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir en við mældum nálægt helmingi minna af síld núna en á undanförnum árum á sama tíma,” segir Guðmundur Óskarsson sem var leiðangursstjóri í seinni hluta leiðangursins. Hann segir þetta ekki stafa af því að stofninn hafi minnkað heldur hafi vorhlýindin látið á sér standa.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.