Ný rannsókn leiðir í ljós að makríll étur mjög mikið af síldarlirfum, að því er segir á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Í fréttinni er vitnað í nýútkomna skýrslu norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Þar kemur fram að gróft áætlað taki það makrílinn aðeins níu daga að hreinsa upp síldarlirfur á 20 ferkílómetra svæði.

Makríllinn er tækifærissinni þegar kemur að fæðuöflun. Búsvæði makríls hefur stækkað mikið í norðurátt. Norskir vísindamenn hafa því velt fyrir sér hvaða áhrif útrás makrílsins hafi á lífsslíkur síldarlirfa sem reka norður með strönd Noregs seint á vorin.