Krabbaflær, ljósáta og önnur sviflæg krabbadýr eru fyrirferðamestu fæðuhópar makrílsins eða um 70- 99% af þyngd fæðunnar, samkvæmt rannsókn á Íslandsmiðum. Á stökum svæðum fannst fiskbráð í magasýnum og vógu síli og loðnuungviði þar mest.
Þegar höfð er í huga dreifing makrílsins á íslenska hafsvæðinu benda niðurstöður rannsókna til þess að áhrif makríls á aðra nytjastofna í hafinu kringum Ísland sé fyrst og fremst vegna fæðusamkeppni, en síður vegna afráns á viðkomandi stofnum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar og byggir á söfnun magasýna úr makríl sumrin 2009 og 2010. Skýrslan er birt á vef stofnunarinnar.