„Það hefur enginn fengið neitt. Hann er bara ekkert mættur,“ segir Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Hoffelli SU.

„Við erum búnir að fara um allt hérna að austanverðunni. Hann kemur náttúrlega fyrst hérna inn, en það er bara ekki nógu hlýr sjór.“

Hann segir norðanáttirnar vera þrálátar og líklega láti makríllinn bíða eftir sér eitthvað enn.

„Hann hefur ekkert verið mættur alltaf á þessum tíma. Ég held það sé bara spurning um tíma, það gæti alveg verið vika eða tvær sem þarf að bíða. En við verðum að vona að hann komi eitthvað hérna.“

Hafa dekkað stórt svæði

Hoffellið hefur verið að leita út af suðausturlandi á nokkuð stóru svæði.

„Við fórum hérna út á Þórsbanka og suður í Rósagarð og þaðan austur að miðlínunni milli Íslands og Færeyja og með henni allri alveg, suður í landhelgislínuna vestur eftir sunnan við Ísland. Fórum aðeins með henni og svo aftur norður eftir. Við erum búnir að krussa svona, þetta er fjórða ferðin. Fórum vestur undir Reynisdýpi núna.“

Önnur skip hafa sömuleiðis verið á höttunum eftir makríl undanfarið. Eyjabátarnir Kap og Huginn hafa verið að skoða svæðið suður af Vestmannaeyjum. Uppsjávarskip Brims, bæði Venus og Víkingur, hafa síðan verið að skoða svæðið vestan megin, alveg frá Reykjanesi og austur fyrir Eyjar.

Stöku fiskur á stangli

Hvergi hefur fundist makríll nema stöku fiskur á stangli, mjög dreift. Hins vegar er mikið af átu á svæðinu og sjávarhitinn komst ekki upp fyrir 8 gráður fyrr en eftir sjómannadag.

Þessa dagana er veðrið óhentugt og varla búist við að menn hugsi sér aftur til hreyfings alveg strax, nema hann leggist í sunnanáttir með hlýindum. Þá gæti makríllinn mögulega farið að láta kræla á sér.

Frést hefur af því að Færeyingarnir séu teknir að veiða makríl innan færeysku lögsögunnar. Færeyskir fjölmiðlar greina frá því að Hoyvík hafi landað 250 tonnum á mánudag og Finnur Fríði kom með 800 tonn á þriðjudag.

Aflahæst í kolmunna

Hoffellið hefur verið á kolmunnaveiðum undanfarið en Sigurður segir að þeir séu nú hættir á kolmunna, í bili að minnsta kosti.

„Við erum svona komnir fyrir horn kvótalega, og myndum þá taka bara restina í haust af kolmunnanum.“

Loðnuvinnslan greinir frá því á vef sínum að Hoffellið sé aflahæsta skip vertíðarinnar í kolmunna, og þar sannist að margur sé knár þó hann sé smár: „Hoffell SU er eitt af minnstu uppsjávarveiðiskipum íslenska flotans en engu að síður aflahæsta kolmunna skipið á þessari vertíð og í öðru sæti af heildarafla eins og staðan er þegar þetta er ritað.“

Hverfull fiskur

Íslendingar hafa gefið út makrílkvóta upp á 140 þúsund tonn og vonir eru bundnar við að hægt verði að veiða sem mest af honum innan íslenskrar lögsögu. Þar er þó engan veginn á vísan að róa. Makríllinn tók ekki að ganga að neinu marki inn í lögsöguna fyrr en upp úr síðustu aldamótum.

Mest var af honum hér á árunum 2014 til 2017, þegar hingað komu tvö til þrjú þúsund tonn, og allt upp í 3.900 tonn árið 2017 samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar. Þetta var stundum vel yfir 30% af heildarlífmassa makríls í Norðaustur-Atlantshafi, og á þessum árum veiddu Íslendingar megnið af sínum afla innan lögsönnar.

Síðan þá hefur samt dregið verulega úr vesturgöngunni, og árið 2020 komu hingað ekki nema fjögur prósent makrílsins og þá hélt hann sig eingöngu við suðausturströndina. Skipin þurftu þá að leita austur í Smugu til að ná aflanum.

Ekkert samkomulag er í gildi milli strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf um skiptingu aflans, en Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til að ekki verði veitt meira 852 þúsund tonn þetta árið.