Makrílveiðin er komin vel í gang og er hópur skipa við veiðar suðvestur af Reykjanesi.

„Það hefur gengið þokkalega vel. Jafnvel betur en á sama tíma í fyrra,“ segir Guðmundur Ingi Guðmundsson stýrimaður á Huginn VE 55 í samtali á vef RÚV.

„Það þarf ekki að hafa mikið fyrir þessu. Þetta er nú bara annað halið hjá okkur í þessum túr. Stutt farið fyrir fínan afla. Menn eru að draga í tvo til fjóra tíma fyrir 150 til 200 tonn plús.“

Hópur skipa er við veiðar suðvestur af Reykjanesi. Auk Hugins má nefna Helgu Maríu, Brimnes, Heimey, Kap og Álsey. „Við erum núna í Skerjadýpinu. Komnir aðeins vestar en við vorum fyrir viku. Þá vorum við suður af Eyjum. Það er líka út af veðri sem við komum hingað,“ segir Guðmundur Ingi, en Huginn er nú í sínum öðrum túr. Þegar hefur rúmum 400 tonnum verið landað.

Guðmundur Ingi segir ástand makrílsins gott. „Fiskurinn er bara þokkalega feitur og fínn. Stór, um 410 grömm, sem er bara þokkalega gott miðað við þennan árstíma.“